Áminning um að byggja betri og grænni heim

0
620
Guterres Norðurlandaráðsþing

Oddvitar norrænu ríkjanna og þingmenn á Norðurlandaráðsþingi lýstu ótvíræðum stuðningi við Sameinuðu þjóðirnar. Forsætisráðherrar Norðurlanda tóku til máls á þinginu í gær að lokinni ræðu António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann ávarpaði þingið frá New York með fjarfundarbúnaði. 

António Guterres fékk þau svör hjá norrænu forsætisráðherrunum sem hann hafði vonast til. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í erindi sínu að Norðurlönd myndu telja farsóttina áminningu um að byggja betri, grænni og réttlátari heim.

Traustur vinur

„Norðurlönd verða ávallt Sameinuðu þjóðunum traustur stuðningur og vinur, bæði að því er varðar pólitíska og efnahagslega þætti. Við erum reiðubúin að tryggja okkur betri framtíð.“

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði að Finnar væru nú þegar farnir að huga að tímanum eftir að farsóttinni linnir. 

„Finnland leggur áherslu á að enduruppbygging efnahagslífsins og samfélagsins verði græn og sjálfbær og öllum til góðs. Ef til vill kemur í ljós að græn enduruppbygging veiti okkur einstakt tækifæri til að takast á við grundvallarorsakir faraldursins og að það hraði um leið þróuninni í átt til kolefnishlutleysis,“ sagði Sanna Marin.

Fylktu sér að baki SÞ

Þingmennirnir fylktu sér sömuleiðis á bak við António Guterres og spurðu hvernig Norðurlönd gætu beitt sér frekar að þessu leyti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Danski þingmaðurinn Annette Lind úr flokkahópi jafnaðarmanna benti á að Danmörk hefði þegar tryggt öllum íbúum sínum COVID-19-bóluefni þegar það verður tilbúið.

„Hvað getum við gert til að stuðla að því að bóluefni verði aðgengilegt fyrir þá sem búa í efnaminni löndum heims?“ spurði Annette Lind.

(Heimild: norden.org)