Atkvæðagreining – Ísland á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

0
533

13. febrúar 2007. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hefur hleypt af stokkunum greiningu á þátttöku Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á heimasíðu sinni frá og með ársbyrjun 2007. Atkvæðagreining verður á vefsetri félagsins að lokinni hverri atkvæðagreiðslu í allsherjarþinginu um ályktunardrög.

 

Hvaða mál var á dagskrá? Hvernig greiddi Ísland atkvæði? Hvernig greiddi Ísland atkvæði miðað við hin Norðurlöndin, ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, NATO-ríkin, ríki Arababandalagsins, og fleiri hópa? Komi áhugaverð frávik í ljós verður sérstaklega greint frá því. Leitast verður við að hafa greininguna einfalda og skorinorða.

Atkvæðagreininguna verður að finna neðst á forsíðu vefsetursins auk þess sem, í fyllingu tímans, verður boðið upp á uppflettingar í safni. Þar sem kostur er verður atkvæðahegðun tengd við samsvarandi hluta í málefnayfirliti utanríkisþjónustunnar um áherslur Íslands.

Taki fulltrúi Íslands til máls á fundum allsherjarþingsins við atkvæðagreiðslur verður þess einnig getið. Alltaf verður vísað til fréttatilkynningar Sameinuðu þjóðanna frá viðkomandi fundi allsherjarþingsins.
 
Sjá nánar: http://www.felagsameinuduthjodanna.is/