Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á fyrsta alþjóðlega lýðræðisdaginn 15. september 2008.

0
411

Mér er það sönn ánægja að nú skuli haldinn hátíðlega í fyrsta skipti Alþjóðlegi lýðræðisdagurinn. Allsherjarþingið samþykkti að halda árlega lýðræðisdag til að minnast Lýðræðisyfirlýsingar Alþjóða þingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union) frá árinu 1997.   

  Þegar þingmannasambandið gaf út yfirlýsinguna fyrir ellefu árum, sem leiðsögn fyrir ríkisstjórnir og þing um allan heim, var reistur sannkallaður bautasteinn í eflingu lýðræðisins.   Rétt eins og hin lífseiga Mannréttindayfirlýsing, fimmtíu árum fyrr, fyllti yfirlýsingin upp í tómarúm. Í dag getum við skírskotað til Lýðræðisyfirlýsingarinnar þegar fjallað er um grundvallar lögmál lýðræðisins, viðmið í starfi lýðræðislegra stjórna og alþjóðlega vídd lýðræðisins.  .

Það er athyglisvert að ríki sem eru í óðaönn að koma sér upp og viðhalda lýðræðislegum stjórnarháttum skuli hafa fitjað upp á þessum degi. Það voru sannarlega öflug skilaboð til ríkja heims þegar Katar sem forystuþjóð samtaka nýrra og endurreistra lýðræðisríkja lagði til á Allsherjarþinginu að haldinn skyldi lýðræðisdagur. 

 Ég er staðráðinn í því sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að samtökin styðji viðleitni til að byggja upp og efla lýðræðislega stjórnarhætti, hvar sem því verður við komið. Reynslan hefur kennt okkur að lýðræði er nauðsynlegt til þess að hrinda í framkvæmd grundvallar markmiðum okkar um frið, mannréttindi og þróun. Sönn lýðræðisríki fara ekki með ófrið á hendur hverjum öðrum. Mannréttindi og réttarríki þrífast best í lýðræðislegum samfélögum. Og þróun er mun líklegri, þar sem fólk hefur eitthvað um það að segja hvernig því er stjórnað og fær hluta af afrakstri framfara.

 Við gerum okkur ljós þau almennu sannindi að þegar öllu er á botninn hvolft er það sterkt, virkt og hávært borgaralegt samfélag sem skapar lýðræði. Borgaralegt samfélag elur af sér ábyrga borgara og tryggir að lýðræðislegir stjórnarhættir virki. 

 Með öðrum orðum er lýðræðisvæðing ekki íþrótt fyrir aðgerðalausa áhorfendur. Og það er líkara maraþoni en spretthlaupi. Það er niðurstaða langrar baráttu einstaklinga, alls kyns hópa og heilla þjóða. Við skulum öll leika okkar hlutverk til fulls.