Ban fordæmir árás á 14 ára baráttukonu

0
466

Pakistan school

11. október 2012. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmir skotárásina á Malala Yousufzai, fjórtán ára gamla pakistanska baráttukonu fyrir réttindum stúlkna og kvenna til menntunar, og tvær aðrar stúlkur. Hann krefst þess að gerendur þessa “ógeðfellda og huglausa” verknaðar verði dregnir fyrir rétt hið fyrsta.

Framkvæmdastjórinn hefur, eins og svo margir aðrir um allan heim, fylgst fullur aðdáunar með kjarkmikilli baráttu Malala Yousufzai fyrir grundvallarrétti til menntunar sem innsiglaður er í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmdastjórinn vonar að Malala Yousufzai og hinar stúlkurnar tvær nái fullum og skjótum bata.

Óþekktir vígamenn hófu skothríð á stúlkurnar þar sem þær biðu eftir strætisvagni. Yousufzai var skotin í höfuðið en er á sjúkrahúsi og úr lífshættu.

Hún var aðeins ellefu ára þegar hún byrjaði að skrifa dagbók, tveimur árum eftir að Talibanar náðu yfirráðum yfir heimkynnum hennar í Swat-dalnum og lokuðu öllum stúlkna-skólum.  Í dagbókinni sem hún hélt fyrir þjónustu breska ríkisútvarpsins BBC á Úrdú lýsti hún ofríki Talíbananna.  
Dagbókina skrifaði hún undir dulnefni en steig fram í dagsljósið eftir að Talibanar voru reknir á brott; hún var sæmd orðu í Pakistan og tilnefnd til alþjóðlegra friðarverðlauna barna.    

Í einni af dagbókarfærslum sínum lýsti hún því þegar Talibanar gáfu út tilkynningu um bann við menntun stúlkna: “Dagurinn í dag er sá seinasti sem við sækjum skóla og því ákváðum við að leika svolítið lengur á leiksvæðinu. Ég held að skólinn eigi eftir að opna aftur einn góðan veðurdag en þegar ég var á leið heim leit ég á skólabyggingarnar eins og ég kæmi hingað aldrei aftur.”  

Hún segist vilja lesa lög og taka þátt í stjórmálum þegar hún verði fullorðin. “Ég á mér draum um land þar sem mentun er í fyrirrúmi.”