Ban Ki-moon og Bush Bandaríkjaforseti leggja áherslu á samstarf

0
493

16. janúar  2007 – Ban Ki-Moon segir að hann og George W. Bush, Bandaríkjaforseti hafi verið sammála um að vinna í sameiningu að markmiðum friðar og aukinnar velmegunar í heiminum, á fyrsta fundi þeirra frá því Kóreubúinn tók við starfi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um áramót.

Ban sagði fréttamönnum eftir viðræður hans og Bush í Hvíta húsinu að þeir hefðu átt “mjög góðan, mjög gagnlegan fund” og hann hefði lagt áherslu á gildi öflugrar samvinnu á milli Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjanna. 

“Sameinuðu þjóðirnar þurfa á öflugri og virkri þátttöku Bandaríkjanna og stuðningi þeirra ð halda. Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar eru einhuga um að vilja efla mannréttindi, lýðræði og frelsi í heiminum og tryggja frið og öryggi auk þess að stuðla að almennri velmegun”, sagði framkvæmdastjórinn.

Ban sagði að þeir hefðu rætt mikilvæg staðbundin vandamál, á borð við Darfur, Miðausturlönd, Íran, Írak, Sómalíu og kjarnorkuáætlanir Norður-Kóreu. 

Framkvæmdastjórinn bætti við að hann væri enn sannfærðari en áður eftir viðræður sínar við Bush að Sameinuðu þjóðirnar gætu átt “gagnkvæma samvinnu og góð samskipti í framtíðinni við Bandaríkin”.  

Sjá meira: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=21250&Cr=Ban&Cr1=Ki-moon