Barátta frumbyggja á Norðurlöndum heldur áfram

0
742
Samar

 Ný finnsk heimildamynd hefur beint kastljósinu að stöðu og umkvörtunarefnum Sama í Finnlandi. Samar eru dreifðir um Finnland, Noreg, Svíþjóð og norðvesturhluta Rússlands.

 21.mars er Alþjóðlegur dagur upprætingar kynþáttamismununar. Sama dag hófst vikulöng herferð til stuðnings fórnarlömbum kynþáttahaturs og mismununar. COVID-19 heimsfaraldurinn kemur hart niður á minnihlutahópum, ekki síst vegna þess að hann bætist við aukna mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis.

Af þessu tilefni er athyglinni sérstaklega beint að stuðningi ungs fólks við baráttuna gegn mismunun.

Mismunun í dag

Samar
Suvi West

Saminn Suvi West er baráttukona fyrir réttindum minnilhutahópa á Norðurlöndum. Ný heimildamynd eftir hana nefnist Okkar þögla barátta (Eatnameamet – Hiljainen taistelumme) og snýst um meðferð á Sömum, skoðunum þeirra og stöðu í Finnlandi.

„Mynd mín snýst um stefnu finnsku ríkisstjórnarinnar í málefnum Sama. Samar hafa mátt búa við kerfi nýlenduveldis. Mismununin er margslungin, jafnt í samfélaginu sem og í stjórnmálum. Kynþáttahyggjan er í stórum stíl og á mörgum sviðum,“ segir West.

Saga Sama og staða þeirra í dag er lítt kunn í Finnlandi og þess vegna breytist lítið ár frá ári.

„Í norðurhluta Finnlands er harkaleg kynþáttahyggja gagnvart Sömum ríkjandi. Í suðurhluta landsins er afstaðan oft fólkin í græskulaus eða góðlátlegu gríni. Samt sem áður gera margir sér litla grein fyrir að Samar eru frumbyggjar rétt eins og Indíanar í Ameríku, frumbyggjar Ástralíu eða Maróitar á Nýja Sjálandi. Við erum ekki eign Finnlands og land okkar er ekki aðeins leikvöllur Finna, ferðamannastaður eða vettvangur námugraftar.“

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir að engin vísindi réttlæti að einn kynþáttur sé öðrum æðri. Sameinuðu þjóðirnar hafa líka gert aðildarríkjum sínum að ryðja úr vegi hvers kyns mismunun jafnt hjá hinu opinbera sem í einkageiranum. En reyndin er stundum önnur.

„Fulltrúar finnskra stjórnvalda hafa virt Sama að vettugi og fótum troðið réttindi þeirra. Svokallaður Tana-samningur um veiðiréttindi  og ný tiilskipun sem kennda er við Metsähallitus munu hafa mikil áhrif á framtíð Sama. Finnland hefur þegar verið varað við að það brjóti mannréttindi Sama.”

Áframhaldandi barátta Sama

 Menntakerfi Finnlands nýtur virðingar sem eitt hið besta í heimi, en það er ekki gallalaust. Finnskir nemendur læra lítið sem ekkert um Sama. Að mati Wests er þetta áhyggjuefni, því margir vita ekkert um sögu og menningu Finna.

„Samar hafa barist fyrir því svo árum skiptir að upplýsingar um Sama séu hluti af námsskrá. Af einhverjum ástæðum hefur skólakerfið ekki sinnt þessu og Samar hafa ætíð verið settir til hliðar. Háskólum ber líka að taka þetta alvarlega. Þeir ættu að gefa því gaum hvernig hægt er að útvega ekki aðeins Sömum heldur öðrum minnihlutahópum griðasvæði.“

Samar hafa barist fyrir réttindum sínum lengi, en nú er komið að ögurstund og það mun ráðast hvort menning þeirra lifir af. Staðan er alvarleg, ekki síst vegna fáfræði almennings.

„Svo virðist sem unga kynslóðin sé algjörlega týnd. Hún hefur aldrei komist í snertingu við við fullnægjandi og nákvæmar upplýsingar um Sama.“

Ekki illgirni

Þegar upplýsingar vantar í skólum, þrífast gamlar ímyndir og fórdómar sem berast frá einni kynslóð til annarar. Þetta torveldar nýrri sýn á Sama.

„Ég held að fólk sé yfirleitt ekki illgjarnt og lágkúrulegt, það er einfaldlega grunlaust og ómeðvitað um hagi Sama,“ segir West.

West tekur raunhæft dæmi. Samískir stúdentar við háskólann í Oulu bentu á að í auglýsingu um tónlistarnám var notuð fölsuð samísk tromma. Stúdentarnir urðu í kjölfarið fyrir ofsóknum á stúdentagerðinum.

„Þeim var meira að segja hótað lífláti.“

Fordómar eru þrándur í götu

 Þótt efniviður West í mynd hennar komi frá Finnlandi, þá bendir hún á að við sömu vandamál sé að glíma í þeim fjórum löndum sem Samar byggja. West minnir á að kynþáttahyggja sé stundum ekki augljós því hún standi svo djúpum rótum.

„Sumt lítur sakleysilslega út, en þegar minnilhutahópar verða ítrekað fyrir barðinu á sömu fordómum og smættun og eru gerðir aftur og aftur að furðuverki, er þetta kerfislægt.“

Til þess að skilja baráttu annara verður að hlusta gaumgæfilega á sögu þeirra.

„Áður en ég gerði þessa mynd héldu sumir að skoðanir mínar, þegar ég reyndi að tala um pólitískt og félagslegt ástand, væri til marks hegðunarvanda minn. Aðrir Samar hafa sömu sögu að segja á öðrum sviðum. Á hinn bóginn ganga sumir enn lengra í hina áttina og brennimerkja mig sem vesælt fórnarlamb og spyrja um mína persónulegu reynslu. Allt sem ég vil segja snýst um kerfislæga kynþáttahyggju sem snertir stóran hóp fólks.“

Á hinn bóginn hefur myndin fengið góðar viðtökur hjá áhorfendum.

„Viðbrögð þeirra Finna sem séð hafa myndina hlýja mér um hjartarætur. Viðbrögðin hafa verið góð en mörgum hefur verið brugðið. Sumir hafa velt vöngum yfir því hvers vegna þeir hafi ekki heyrt áður um þessa hluti.“

Tími kominn til breytinga

Orð eru til alls fyrst og því er umræðu þörf. Hins vegar, hafa umræður um stöðu minnihlutahópa oft og tíðum síður en svo farið fram með virðingu, og slíkt er verra en ekkert. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð en West segir að jafnvel blaðamenn séu oft ekki vel upplýstir sem skapar enn frekari vandamál. Þá sé því oft ekki vel tekið þegar Samar segja frá reynslu sinni.

„Þess eru dæmi að Samar verða fyrir barðinu á hatursorðræðu þegar þeir draga í efa finnskt fullveldi í Sápmi (landi Sama) eða hvernig hefur verið ránshendi um menningu Sama.“

Samar telja sig síðustu frumbyggja Evrópu og þeir biðja um stuðning til að fá réttindi sín viðurkennd. Sjá einnig hér: „Við erum frumbyggjar þessa lands.“

#FightRacism

Sameinuðu þjóðirnar hvetja alla til að taka þá í herferð gegn mismunun, fordómum og umburðarleysi á samfélagsmiðlum. Myllumerkið er #FightRacism.