Berklar enn á meðal helstu dauðsvalda

0
485

Berklar

24. mars 2014. Berklar eru læknanlegir en af þeim 9 milljónum í heiminum sem veikjast á ári, komast 3 milljónir ekki undir læknishendur.

Afleiðingin er sú að berklar eru næstalgengasta banamein af einstökum dauðsvöldum á eftir HIV/Alnæmi. Á Alþjóða Berkladeginum sem er í dag, er áherslan á að “ná til þriggja milljónanna.” 

Berklar herja oftast á ungt fullorðið fólk, en þó þekkjast þeir hjá öllum aldurshópum. Þessi sjúkdómur er algengastur í þróunarríkjum en þar eru 95% tilfella og dauðsfalla. Flestir þeirra sem veikjast eru á meðal fátækasta fólksins í þeim samfélögum sem standa höllustum fæti eða í jaðarhópum á borð við farandverkamenn, flóttamenn, fanga, frumbyggja eða eiturlyfjaneytendur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin í samvinnu við Stop TB Partnership, reynir á Alþjóðlega berkladaginn að vekja fólk til vitundar um varnir gegn berklum og hvernig má stemma stigu við útbreiðslu.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að umönnun hinna sjúku sé öllum í hag. “Með því að ná til þriggja milljónanna sem ekki njóta umönnunar nú, sköpum við betri framtíð fyrir allt mannkynið.”

Í dag er einnig Alþjóðlegur dagur helgaður réttinum til sannleikans um gróf mannréttindabrot og sæmd fórnarlamba. Þessi réttur er óaðskiljanlegur og sjálfstæður réttur sem tengist skyldu og skuldbindingu ríkja til að vernda og tryggja mannréttindi, til að rannsaka á skilvirkan hátt og tryggja virk úrræði og bætur.

Í ávarpi í tilefni dagsins segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að allir meðlimir alþjóðasamfélagsins verði að “heita því að hjálpa fórnarlömbum, fjölskyldum þeirra og samfélaginu í heild að virkja réttinn til að vita sannleikann og vernda þá sem berjast fyrir því að sannleikurinn verði um síðir yfirsterkari.”