#BLM: VIð endurritum ekki söguna en getum framvegis orðið hluti af henni

0
788
Kynþáttahyggja
Black lives matter. Mynd: Clay Banks-Unsplash

Kröfur um jafnrétti heyrast um allan heim. Almenningur hefur að undanförnu risið upp víðs vegar gegn kynþátthatri eftir að George Floyd, óvopnaður þeldökkur maður féll fyrir hendi lögreglu í Bandaríkjunum 25.maí.

Margir hafa hins vegar barist gegn kynþáttahyggju allt sitt líf. Amiirah Salleh-Hoddin er virk í baráttunni gegn kynþáttahyggju. Hún var einn stofnenda Vettvangs gegn rasisma (Anti-Racist Forum) sem hefur höfuðstöðvar í Finnlandi og er varaformaður Evrópska tengslantetsins gegn kynþáttahyggju (European Network Against Racism).  Hún vinnur einnig að rannsóknum á þessu sviði sem doktorsnemi. „Ég hef í raun barist gegn rasisma á öllum sviðum lífs míns,“ segir hún.

Sunna Sasha Larosiliere hefur meistaraprófsnafnbót í hamfara- og öryggisstýringu. Hún hefur sérstök tengsl við Svört líf skipta máli hreyfinguna (Black Lives Matter) því hún er hálfur Haítíbúi, ólst upp í New York-borg en býr nú á Íslandi.

Bæði Sunna og Amiirah hafa skorið upp herör gegn kynþáttahyggju í samfélögum sínum. Þær ræddu við vefsíðu UNRIC og gáfu nokkur ráð um baráttuna gegn rasisma.

Barátta fyrir jafnrétti og umbætur á starfi lögreglu

Kynþáttahyggja
Mótmæli gegn kynþáttahatri. Mynd: Clay-Banks-on-Unsplash

Mikil mótmæli hafa orðið í Bandaríkjunum á liðnum vikum þar sem krafist er umbóta á starfi lögreglu, upprætingu hrottaskapar og jafnrétti fyrir alla.

Sunna og Amiirah telja að ástæða þess hversu fjölsótt mótmælin hafa verið sé einfaldlega sú að fólk hafi fengið nóg. Mýmörg dæmi séu um að þeldökt fólk hafi látist í haldi lörgreglu og dauði George Floyd sé einfadlega kornið sem fyllti mælinn.

„Svart fólk hefur alltaf verið kúgað, það hefur mótmælt og talað um það en hingað til hefur ekki verið hlustað. Gremjan hefur aldrei horfið og nú hefur fólk einfaldega fengið nóg,“ segir Sunna í samtali við UNRIC.

COVID-19 hefur líka átt sinn þátt í atburðarásinni. „COVID-19 hefur haft áhrif á mótmælin því vegna útgöngubanns hefur fólk haft tíma til að hugsa og taka afstöðu til frétta,“ segir Sunna.

Amiirah telur að COVID-19 hafi varpað ljósi á kynþáttalegt misrétti. „Heilbrigðisstarfsmenn og þeir sem hafa misst vinnuna koma flestir úr röðum kynþátta-minnihluta.“

Norðurlönd eru ekki undantekning

Mótmæli tengd Svörtum lífum sem skipt máli hafa tengt anga sína til Norðurlanda. Þúsundir hafa ekki aðeins sýnt samstöðu með Bandaríkjamönnum heldur einnig beint kastljósi að ofstopa lögreglu og kynþáttahyggju á Norðurlöndum.

Kynþáttahyggja
Sunna Sasha Larosillere býr á Íslandi en er hálfur Haítíbúi.

„Þökk sé internetinu erum við í návígi við atburðina. Og maður vill grípa til aðgerða þegar maður sér svo hróplegt ranglæti í öðru landi. En Norðurlönd eiga líka sína sögu í kynþátthyggju, þannig að þetta hefur endurspeglast og fólk áttar sig á að skórinn kreppir líka að heimafyrir,“ segir Sunna

„Kerfislæg kynþáttahyggja stendur styrkum fótum í norrænum samélögum,“ segir Amiirah í viðtalinu. Með kerfisbundnum rasisma er vísað til þess með hverjum hætti félagsleg-, efnahagsleg- og pólitísk kerfi í heiminum í krafti stofnana og viðmiða samfélagsins viðhalda og auka kynþáttalegt misrétti.

„Norðurlandabúar hafa tilhneiginu til að telja sig hafna yfir kerfisbundna  kynþáttahyggju og að ástandið hjá þeim sé ekki jafn slæmt og í Bandaríkjunum. En það þrífst kynþáttahatur og lögregluofbeldi á Norðurlöndum, en það er ekki eins mikið tala um það.“

Sunna segir að kynþáttahyggja á Íslandi felist í fáfræði og að leyfa ákveðinnni hegðun að viðgangast. „Þessi mótmæli hafa komið af stað góðri samræðu á Íslandi um aðra minnihlutahópa, einkum Íslendinga af asískum uppruna sem hafa verið grátt leiknir. Þetta tekur á sig mynd gríns og staðalímynda sem síðan hleður upp á sig og verður að öðru verra.“

Sunna telur að ungt fólk sé lykillinn að betri framtíð. Þau læra og kynna sér hlutina af eigin rammleik.”

TikTok, “meme” og ofbeldi  

Samskiptamiðlar hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna við núverandi aðstæður því þeir eru kjörið verkfæri til að koma upplýsingum á framfæri þegar hefðbundnir fjölmiðlar þegja þunnu hljóði. En samskiptamiðlar eru margslungið fyrirbæri.

Kynþáttahyggja
Amiirah Salleh Hoddin. Mynd: Heli-Pekkonen

„Samskiptamiðlar eru kjörnir til að magna upp skilaboð og koma upplýsingum til skila. En á sama tíma magna þeir upp áföll,“ útskýrir Amiirah. „Ef við horfum stöðugt á myndbönd af þeldökku fólki sem deyr af völdum lögreglu-ofbeldis, endurupplifir svart fólk og aðrir kynþáttaminnihlutar stöðugt áfallið. Við horfum á myndböndin af svörtu fólki deyja á milli þess sem við fylgjumst með TiTok og meme-um og þetta gerir dauða svarts fólks að hversdagslegu fyrirbæri. Hverjir skaðast þegar við deilum myndböndum?“

Amiirah er hér að tala um afar persónulegt málefni því hún missti frænda sinn í árás kynþáttahatara á Nýja Sjalandi á síðasta ári.

„Árásinni var streymt beint og myndböndum var deilt um allan heim. Það er alltaf búist við að þeir sem verði fyrir barðinu á kynþáttahyggjunni láti í sér hyera í hvert skipti sem eitthvað gerist í þeirra samfélagi. En það er ekki hægt að ætlast til að við bregðumst við á samskiptmiðlum um leið og eitthvað gerist, því áföll geta magnast. Þetta er þreytandi.“

Hvaða harmleikur selur mest?

Kynþáttahyggja er eitt helsta kúgunarkerfið en það tengist öðru eins og kynferði og kynhneigð.  Amiirah segir að þarna séum við á mörkum kynþáttar og kynferðis og að kynþáttahyggjan og feðraveldið sjái til þess að kastljósinu sé aðeins beint að sumum dauðsföllum.

Kynþáttahyggja
Athyglin beinist í ríkari mælum að körlum en konum þegar „Svört líf“ eru annars vegar. Mynd: Koshu-Kunii-on-Unsplash.

„Oftast eru það svartir karlar sem koma af stað mótmælum. Samt deyja svartar konur og kynskiptingar í haldi lögreglu en nöfn þeirra eru óþekkt. Fjölmiðlar tala aðeins um sum dauðsföll, því þeir spyrja sig hvaða harmleikur selur mest? Með öðrum orðum þá beina fjölmiðlar atyglinni mest að svörtum körlum þvi þeir eru “vinsælli”.

Þess vegna var herferðinni #SegðuNafnHennar (#SayHerName) ýtt úr vör. Henni er ætlað að vekja fólk til vitundar um óþekkt nöfn og sögur svartra kvenna og stúlkna sem hafa sætt kynþátta-ofbeldi af hálfu lögreglu en fjölmiðlar hafa sniðgengið.

Fjölmiðlalæsi er bæði Amiirah og Sunnu hugleikið. „Fólk brýtur ekki efnið til mergjar, les ekki ummæli eða staðreynir,“ segir Amiirah.

„Við þurfum að finna okkar eigin upplýsingar og fréttir og vera gagnrýnin á það sem við sjáum. Við erum svo fljót að trúa því sem við viljum trúa,“ samsinnir Sunna.

Handan tístsins

En hvað ber að gera til að uppræta kynþáttakerfi? Í baráttunni er mikilvægt að greina á milli þessa að vera andsnúinn rasisma og vera ekki rasisti.

And-rasismi felur í sér meðvitað og virkt val eða aðgerðir til að vinna gegn og leitast við að uppræta kynþáttalegt stigveldi. Það er langvarandi verkefni sem hefur í för með sér stöðuga sjálfsrýni og lærdóm og aflærdóm.

„Að vera andrasisti er er ekki aðeins merkimiði sem maður skreytir sig með. Margir segja um sjálfa sig að þeir séu ekki rasistar en það er mjög óvirk afstaða,“ útskýrir Amiirah.

„Hvað gerir maður til að uppræta kynþáttakerfið? Maður verður að komast lengra en að setja inn færslu á samskiptimiðil eða tísta. Maður þarf að lesa og læra sögurnar. Gera þetta með það að markmiði að leysa upp kynþáttakerfið,“ segir Amiirah.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur bent á þörfina á umbótum þegar kynþáttabundnir innviðir eru annars vegar.

„Við verðum að láta í okkur heyrast gegn hvers kyns tjáningu kynþáttahyggju eða framkomu sem felur slíkt í sér. Það er brýnt að leysa upp kynþátta-kerfi og umbreyta stofnunum kynþáttahyggju.“

 Margt er hægt að gera

Amiirah segir að jafnvel þótt það sé af hinu góða að sýna samstöðu, þá ættu þeir að leiða til einhvers meira.

„Hvernig geta samstöðu-aðgerðir leitt til einhvers sem hefur í för með sér raunverulegar afleiðingar, áþreifanlega pólitík, inn í stofnanir þar sem ákvarðanir eru teknar, þegar fólk er ráðið og kosið er í kosningum? Það þarf að komast lengra en mótmæla í einstökum tilfellum eða sýna samstöðu og skapa stærri hrefingu í þágu andrasisma.“

Svipað hefur verið upp á teningnum innan raða Sameinuðu þjóðanna. Fyrir nokkrum vikum tók hópur tuttugu háttsettra stjórnenda frá Afríku eða af afrískum uppruna sig saman og birti yfirlýsingu.

Í henni var hvatt til þess að það þyrfti að „ganga lengra og gera meira“ í stað þess að láta við það sitja að fordæma. Í yfirlýsingunni var áhersla lögð á raunhæfar aðgerðir í baráttunni við rasisma og tekið fram að Sameinuðu þjóðunum bæri að sýna fordæmi.

„Notið ykkar vettvang til að deila réttum upplýsingum. Lesið bækur eftir Angela Davis og Frederick Douglass. Fylgið fordæmi svartra áhrifavalda. Staðreynið heimildir. Styðjið svört fyrirtæki. Látið fé af hendi rakna. Það er margt hægt að gera,” segir Sunna.

„Notið forréttindastöðu ykkar til að hjálpa minnihlutum og kúguðu fólki því þannig komið þið málstaðnum á framfæri. Látið vini ykkar í forréttindastöðum heyra það þegar þeir láta eitthvað móðgandi út úr sér,“ segir Sunna.

Sögunni verður ekki breytt en allir geta haft áhrif á framtíðina. „Við getum ekki endurritað söguna en við getum sé til þess að við séum hluti af sögunni framvegis,“ segir Sunna.

Nánar um kynþáttahyggju, sjá hér :

UNRIC bakgrunnur: kynþáttahyggju og kynþátta-misrétti: and racial discrimination https://unric.org/en/unric-library-backgrounder-racism/

Barátta gegn rasisma:  https://www.un.org/en/letsfightracism/

Evrópuráðið: https://www.consilium.europa.eu/media/44481/antiracism.pdf