Blóðbaðið í Nígeríu „snertir samvisku heimsins“

0
527

Boko Haram

12. janúar 2015. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt harðlega blóðugar árásir Boko Haram í norður Nígeríu undanfarna viku. Hundruð hafa fallið í tveimur árásum.

Sú mannskæðari var í Baga í Borno-ríki nærri landamærum við Tsjad, en þar féllu allt að tvö þúsund manns.

„Framkvæmdastjórinn fylgist náið með ástandinu í Nígeríu,“ segir talsmaður hans í yfirlýsingu og leggur áherslu á að Sameinuðu þjóðirnar séu reiðubúnar að veita ríkisstjórn Nígeríu og öllum nágrannaríkjum sem hlut eiga að máli, aðstoð við að binda enda á ofbeldi og hlúa að óbreyttum borgurum sem orðið hafa fyrir skakkaföllum.

Í annari árás var tíu ára gömul stúlka látin bera sprengju inn í fjölmenni í bænum Maiduguri sem einnig er í Borno-ríki, en sprengining kostaði 19 lífið. Anthony Lake, forstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sagði að myndir frá Nígeríu hlytu að hreyfa við samvisku heimsins.

Hann sagðist harma að svo mörg saklaus börn, konur og gamalt fólk, hefði verið brytjað niður í Baga og lítil stúlka hefði verið send í dauðann með sprengju bundna yfir bringuna. „Og við skulum ekki gleyma stúlkunum tvö hundruð sem hrifsaðar voru frá fjölskyldum sínum,“ bætti hann við.

„Orð fá hvorki lýst andstyggð okkar, né linað þjáningar þeirra sem verða fyrir barðinu á stöðugu ofbeldi í norðurhluta Nígeríu, sagði Lake. „Svona getur þetta ekki haldið áfram.

Mynd: Flóttamenn frá Nígeríu sem flúið hafa ofríki Boko Haram í Mora í Kamerún. UNHCR/D. Mbaoirem