Boðskapur Nelsons Mandela á erindi við okkur

0
712

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að boðskapur Nelsons Mandela um að binda enda á kynþáttahyggju sé sérstaklega brýnn í dag.

Í ávarpi á Alþjóðlegum degi Nelsons Mandela 18.júlí segir Guterres að Mandela „hafi verið einstakur maður sem var holdgervingur æðstu vona Sameinuðu þjóðanna og mannkynsins alls.”

 „Hvatningar Madiba um samstöðu og endalok kynþáttahyggju eiga sérstakt erindi við okkur í dag.  Félagsleg samheldni á undir högg að sækja vegna sundrungar,“ sagði aðalframkvæmastjórinn. Madiba er ættbálkaheiti Mandela.

„Samfélög skiptast í sívaxandi mæli í andstæða hópa. Hatursfull orðræða fer vaxandi og rangfærslur skyggja á sannleikann. Niðurstöður vísinda eru dregnar í efa og grafið undan lýðræðislegum stofnunum.”

Guterres segir í ávarpi sínu að Alþjóðlegi dagur Nelsons Mandela feli í sér tækifæri til að íhuga lífshlaup hans. Arfleifð hins nafntogaða baráttumanns fyrir mannlegri reisn, jafnrétti, réttlæti og mannréttindum skipti máli.

COVID-19: olía á eld

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. UN Photo/Loey Felipe

„COVID-19 faraldurinn hefur verið sem olía á eld þessarar óheillavænlegu þróunar. Bakslag hefur komið í barátttuna gegn fátækt í heiminum eftir áralangar framfarir.“

„Eins og svo oft á krepputímum eru það þeir sem verst eru settir og sæta mestri mismunun, sem verða harðast úti. Oft og tíðum eru þeir gerðir að blórabögglum fyrir vandamál sem þeir hafa ekki átt neinn þátt í að skapa.”

18.julí ár hvert hvetja Sameinuðu þjóðirnar fólk um allan heim til að fagna Alþjóðlegum degi Nelsons mandela á afmæli hans með því að láta gott af sér leiða í samfélaginu.

Eins og Mandela sagði: Það er í ykkar eigin höndum að grípa til aðgerða og vera aflvakar breytinga með því að taka til hendinni í samfélaginu.

Nelson Mandela helgaði líf sitt þjónustu við mannkynið. Hann var mannréttindalögfræðingur, samviskufangi, alþjóðlegur boðberi friðar og fyrsti lýðræðislega kjörinn forseti frjálsrar Suður-Afríku.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í nóvember 2009 að 18.júlí skyldi vera Alþjóðlegur dagur Nelsons Mandels. Það var gert í viðurkenningarskyni fyrir framlag hans til friðar og frelsis.

Mannleg samstaða

Guterres segir að COVID-19 faraldurinn hafi sýnt fram á mikilvægi mannlegrar samstöðu og einingar – gildi sem Nelson Mandela barðist fyrir í ævilangri baráttu fyrir réttlæti.

„Enginn er öruggur fyrr en allir eru öruggir. Og við höfum öll hlutverki að gegna.

Okkur ber öllum að hafa þann boðskap Madiba að leiðarljósi að hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í því að efla frið, mannréttindi og samhljóm við náttúruna og mannlega reisn allra.”

Nánari upplýsingar um hvað hægt er að gera á þessum Alþjóðlega degi má finna hér.