Mannréttindayfirlýsingin var leiðarljós Mandela

0
593

 Mandela 2

6.desember 2013. Sameinuðu þjóðirnar hafa vottað Suður Afríkubúum og fjölskyldu Nelsons Mandela samúð sína vegna andláts hans.

Mandela, fyrsti svarti forseti Suður Afríku lést í gær á nítugusta og sjötta aldursári. Í yfirlýsingu sinni fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna sagði framkvæmdastjórinn Ban Ki-moon að fyrsta ræða Mandela á Allsherjarþinginu 1994 hefði verið söguleg stund. „Í áratuga langri baráttu gegn kynþáttaaðskilnaði (Apartheid) stóðu Sameinuðu þjóðirnar við hlið Nelson Mandela og öllum þeim sem stóðu andspænis látlausu kyþáttahatri og mismunun,“ sagði framkvæmdastjórinn í yfirlýsingu.

Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sem er einnig frá Suður Afríku, sagði að þegar Mandela var látinn laus eftir 27 ára fangelsisvist hefði hefndarþorstinn virst óslökkvandi því flestir hefðu þráð að „að mismuna þeim sem mismunuðu okkur svo grimmilega.“

„Hann snéri þessu við með orðum sínum. Hann sagði okkur að kasta spjótum okkar og byssum í sjóinn. Hann sagði okkur að leggja hefndina á hylluna og vinna þess í stað að því að byggja upp nýja Suður Afríku sem væri ekki aðeins laus við kynþáttahatur heldur einnig hvers kyns mismunun. Hann sýndi okkur að betri framtíð byggði á sáttum en ekki hefnd.“

Pillay benti á að Mandela hefði sótt styrk í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þegar hann sat í fangelsi á Robben eyju. „Í síðustu ræðu sinni á Allsherjarþinginu í september 1988 sagði hann að Mannréttindayfirlýsingin hefði réttlætt baráttuna gegn Apartheid og bætti við „þegar við erum loks frjáls, ættum við að helga okkur baráttunni fyrir því að hrinda í framkvæmd hugsjónum Mannréttindayfirlýsingarinnar.“
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2009 að 18.júlí, afmælisdagur suður afríska leiðtogans skyldi vera Alþjóðadagur Nelsons Mandela. Þetta var í fyrsta skipti sem alþjóðlegur dagur á vegum samtakanna er helgaður einstaklingi.

Mynd: Mandela, þá varaforseti Afríska þjóðarráðsins í ræðustól Allsherjarþingsins árið 1990.