Boðskapur framkvæmdastjóra SÞ á degi baráttu gegn eyðimerkurvæðingu

0
485
Þurrkasvæði nærri Manatuto á Timor-Leste. SÞ-mynd: Martine Perret

BOÐSKAPUR FRAMKVÆMDASTJÓRA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Á ALÞJÓÐLEGUM DEGI BARÁTTUNAR GEGN EYÐIMERKURVÆÐINGU OG ÞURRKUM

17. júní 2010

 

Þurrkasvæði nærri Manatuto á Timor-Leste. SÞ-mynd: Martine Perret

           

Meir en milljarður af fátækasta fólki heims og því sem stendur hvað höllustum fæti, býr á þurrum svæðum heimsins þar sem viðleitni til að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun hefur reynst torsóttust og dregist á langinn.

Nærri þrír fjórðu hlutar beitarlands sýna þess merki að geta orðið eyðimörkum að bráð. Á síðustu fjörutíu árum hefur nærri þriðjungur ræktarlands heims komist í órækt og oft verið gefinn upp á bátinn. Stanslaust álag af völdum þurrka, hungursneyða og aukinnar fátæktar, valda félagslegri streitu sem getur valdið því að fólk flosni upp gegn vilja sínum, samfélög leysist upp og verði pólitiskum óstöðugleika og vopnuðum átökum að bráð. Raunar er það svo að óáran hvort heldur sem er af völdum mannsins, umhverfisins eða samfélagsins herjar hvað harðast á þurr svæði. Loftslagsbreytingar bæta svo gráu ofan á svart.  

Á þessu alþjóðlega ári fjölbreytni lífríkisins er rétt og skylt að minnast þess að þurr svæði búa yfir fjölbreyttu lífríki og framleiðslu. Þrjátíu prósent allrar uppskeru heimsins á rætur að rekja til þurra svæða. Fjölbreytt lífríki þurra svæða leikur mikilvægt hlutverk í því að breyta kolefni í andrúmsloftinu í lífrænt kolefni – sem er stærsti hluti lífræns kolefnis í heiminum..

Þegar við verndum og eflum þurr svæði, miðar okkur áfram á mörgum vígstöðvum í senn: við eflum fæðuöryggi, við stemmum stigu við loftslagsbreytingum, hjálpum fátækum að taka örlögin í sínar eigin hendur og þokumst fram á við í að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun. Við skulum á þessum degi ítreka staðfestu okkar í að berjast gegn eyðimerkurvæðingu og uppblæstri og draga úr áfhrifum þurrka.