Loftslagsbreytingar. Svalbarði. Þegar franska konan Léonie d´Aunet varð fyrst kynsystra sinna til að stíga fæti á Svalbarða árið 1839 var ferð hennar kynnt sem svaðilför á Norðurheimskautið. Þótt þúsund kílómtrar séu ófarnir á pólinn, náði heimskautaísinn oft og tíðum að ströndum eyjaklasans og ís fyllti firði og flóa.
Þegar Ban Ki-moon þáverandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kom til Svalbarða 170 árum síðar var tilgangurinn að vekja athygli á hlýnun jarðar í aðdraganda COP 15 loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn 2009. Þá voru sömu firðir nánast algjörlega íslausir.
Valið á Svalbarða til að vekja athygli á nauðsyn loftslagsaðgerða var engin tilviljun. Hvergi á jörðu er hlýnunin hraðari. Norðurskautið almennt hefur hlýnað fjórum sinnum meir en jörðin að meðaltali. Meðalhitaukningin frá iðnbyltingu hefur verið 1.1ºC.Hitastigið á Svalbarða hefur hins vegar aukist um 4ºC gráður á um hálfri öld eða frá 1971.
7-10 ºC aukning fyrir 2100
Í skýrslu norsku umhverfisstofnunarinnar frá 2019 er brugðið upp ólíkum sviðsmyndum eftir því hve mikil losun gróðurhúsalofttegunda verður. Samkvæmt bjartsýnisspá mun árlegur lofthiti aukast um hvorki meira né minna en 7 ºC en 10 ºC samkvæmt svartsýnisspá fyrir 2100. Ef þetta gengur eftir mun jöklasvæðið minnka verulega bæði hvað varðar landsvæði og þykkt. Þetta mun svo stuðla að hækkun yfirborðs sjávar í heiminum.
Þótt Léonie d´Aunet hafi verið fyrsta kona, svo vitað sé til þess að hafa sótt Svalbarða heim, höfðu norskir, hollenskir, enskir og franskir hvalveiðimenn – karlar venju samkvæmt – notað eyjarnar við veiðar. Eyjaklasinn bar raunar nafn Spitzbergen, einnar eyjanna þangað til að fullveldi Noregs var viðurkennt 1925.
D´Aunet lýsti augnablikinu þegar hún steig fæti á yfirborð Svalbarðar í fyrsta sinn á strönd Magdalenu-flóa. „Steig fæti niður á jörð, segi ég, en réttara væri að segja á snjóinn, því hvergi sást í bera jörð,“ skrifaði hún í bók sína Ferð konu til Svalbarða (Voyage d´une femme au Spitzberg (1854)).
Jafnvel að sumarlagi, þegar d´Aunet var á ferð var allt snævi þakið. „Á milli allra fjalla þrengdu sér jöklar sem þenjast út ár frá ári. Þetta er óumflýjanlegt: snjórinn safnast upp á tíu mánaða löngum vetri, sem fárra vikna sumarhiti vinnur ekki á. Um síðir verða jöklarnir jafn háir og graníttindarnir í kring.“
Franska konan reyndist vitaskuld ekki sannspá.
La Recherche leiðangurinn
Ferð d´Aunets á Norðurslóðir var liður í svokölluðum La Recherche-leiðangri undir stjórn Íslandsvinarins Pauls Gaimard. D´Aunet hafði samið við Gaimard um að hún fengi að fara með norður ef hún sannfærði eiginmann sinn, myndlistarmanninnn François-Auguste Biard, um að taka boði um Svalbarðaferð. Auguste Mayer sem áður hafði ferðast með Gaimard til Íslands og Noregs átti ekki heimangengt og því var falast eftir að Biard hlypi í skarðið.
Verk Biards, og Mayers meðan hans naut við, sýna okkur mikilfengleika Svalbarða um 1840 áður en loftslagsbreytingar létu á sér kræla.
Þegar vefsíða UNRIC ræddi við Thomas V Schuler, jöklafræðing og prófessor við Oslóar-háskóla var hann staddur í háskólamiðstöðinni á Svalbarða. Steinþrykk úr la Recherche- leiðangrinum prýða einmitt veggi miðstöðvarinnar í Longyearbyen.
„Athuganir okkar sýna að jöklar Svalbarða hafa minnkað að umfangi, sérstaklega undanfarna tvo áratugi og þetta virðist færast í aukana,“ segir Schuler. „Hins vegar er myndin aðeins flóknari að því leyti að það er munur á landshlutum. Meiri bráðnun er í suðvesturhlutanum, þar sem loftslag er mildari.“
Loftslagsbreytingar hafa þegar kostað mannslíf. Tvennt lést í snjóflóði á Longyearbyen, nyrsta byggða bóli veraldar. Haft er fyrir satt að þetta séu tvö fyrstu fórnarlömb loftslagsbreytinga á Svalbarða.
Vísindamenn telja engan vafa leika á því að losun koltvísýrings við bruna jarðefnaeldsneytis valdi hlýnun jarðar. Því er kaldhæðnislegt að Norðmenn halda áfram kolanámi á Svalbarða og er reksturinn nú gróðavænlegri en áður vegna orkukreppunnar og Úkraínustríðsins.
Hafís gæti horfið fyrir 2035
Sumarís hefur minnkað um helming frá því á níunda áratug síðustu aldar. Sumir vísindamenn telja að hann hverfi alveg fyrir 2035. Hvað áhrif loftslagsbreytingar hafa á líffræðilegan fjölbreytileika Svalbarða er óljóst. Vitaskuld er þó ástæða til að óttast um lífsafkomu hvítabjarna eftir því sem hafís í Barentshafi minnkar.
Hvað sem því líður beið d´Aunay óumbeðin frægð þegar hún snéri aftur til Parísar á fimmta áratug 19.aldar. Upp komst um ástarsamband hinnar giftu konu við rithöfundinn Victor Hugo, er þau voru staðin að verki. Skildu þau François-Auguste Biard við svo búið og segir sagan að Loðvík Filippus konungur hafi útvegað málaranum verkefni til að sefa reiði hans gagnvart Hugo.
Að minnsta kosti var honum falið að mála mannhæðaháar veggmyndir í anddyri jarðfræðideildar Náttúrusögusafnsins í París af blóðugum hvítabjarnar- og rostungaveiðum. Haldi hafísinn áfram að hörfa undan Svalbarða er ljóst að ísbirnir, sem eiga þegar í vök að verjast, munu tæpast tæpast kemba hærurnar og hækki hiti um 10 ºC mun dýralíf breytast svo um munar.
Gangi svartsýnisspár eftir verða engir hvítabirnir eftir til að mála, að minnsta kosti ekki á Svalbarða.