Bretar hefja fjárstuðning við UNRWA að nýju

0
2
Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA lengst til hægri á fundi fjárveitenda UNRWA.
Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA lengst til hægri á fundi fjárveitenda UNRWA. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Bretland. UNRWA. David Lammy utanríkisráðherra Bretlands hefur tilkynnt að Bretar muni hefja fjárveitingar til UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna að nýju.

Ný stjórn Verkamannaflokksins telur að úttekt óháðrar nefndar undir forystu Catherine Colonna, fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands, hafi sýnt fram á að UNRWA hafi enga sök borið á hryðjuverkaárás á Ísrael.

Þá sagði Lammy utanríkisráðherra að stofnunin hefði gripið til aðgerða til að tryggja ýtrasta hlutleysi.

Bretland mun veita Palestínu-flóttamannahjálpinni andvirði 27 milljóna Bandaríkjadala til að standa straum af matvælaaðstoð, byggingu skýla og fleira á Gasasvæðinu og Vesturbakka Jórdanar.

Starfsfólk UNRWA styður palestínsk börn í viðleitni til að yfirvinna ógnir stríðsins.
Starfsfólk UNRWA styður palestínsk börn í viðleitni til að yfirvinna ógnir stríðsins. Mynd. UNRWA.

Bandaríkin ein eftir

Bandaríkin eru nú ein eftir af hópi ríkja sem tóku fyrir fjárveitingarnar eftir ásakanir um að einstakir starfsmenn hefðu tekið þátt í hryðjuverkaárásinni 7.október 2023. Þau voru hins vegar stærsti einstaki stuðningsaðilinn.

 Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA ítrekaði eftir tilkynningu breska utanríkisráðherrans að stofnunin væri staðráðin í að hrinda í framkvæmd öllum 50 tillögum óháðu nefndar Catherine Colonna um umbætur.

118 ríki ítrekuðu stuðning við starf UNRWA á fundi fjárveitenda í síðustu viku. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, sagði þar að án aukins stuðnings muni „palestínskir flóttamenn tapa þýðingarmikilli líflínu og síðasta vonarneista um betri framtíð.”

„Við skulum tala skýrt. Það er engin valkostur við UNRWA,“ sagði Guterres.