COP15: UNEP fagnar samkomulagi um líffræðilegan fjölbreytileika

0
329
Líffræðilegur fjölbreytileiki
Mynd: Marcos Paula Prado/Unsplash

COP15. Líffræðilegur fjölbreytileiki. Samkomulag náðist á síðustu stundu á COP15, ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika í Montreal. Inger Andersen forstjóri UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna fagnar því að samkomulag hafi náðst.

Líffræðilegur fjölbreytileiki
Inger Andersen (til hægri) og António Guterres. Mynd: Evan Schneider / UN Photo

„Samþykkt rammasamningsins og meðfylgjandi metnaðarfullra markmiða og viðmiða, auk fjármögnunar, eru aðeins fyrsta skref í að endurræsa samskipti okkar við náttúruna,“ sagði Andersen. „Árangurinn ræðst af því hve hratt og stöðugt ákvæðum samningsins er hrint í framkvæmd.“

Ráðstefnunni hafði verið frestað vegna COVID-19 og flutt frá Kína til Montreal í Kanada. Kínverjar sátu eftir sem áður í forsæti. Kínverski forseti ráðstefnunnar lýsti yfir að samkomulag hefði náðst í morgun þrátt fyrir mótmæli eins ríkis, Lýðveldisins Kongó, á síðustu stundu.

Helstu atriði samkomulagsins eru

Frá COP15.
Frá COP15. Mynd: Evan Schneider / UN Photo
  • Að viðhalda, auka og endurreisa vistkerfi, þar á meðal að stöðva útdauða tegunda og viðhalda erfðafræðilegum fjölbreytileika.
  • „Sjálfbær notkun“ líffræðilegs fjölbreytileika, sem felur í sér í aðalatriðum að tryggja tegundir og búsvæði geti haldið áfram að veita manningum þjónustu á borð við mat og vatn.
  • Að tryggja að ávinningur af nýtingu auðlinda náttúrunnar á borð við, jurtalyf, sé deilt á jafnan og sanngjarnan hátt og að réttindi frumbyggja séu virt.
  • Að sjá til þess að fjármagn og friðunar-úrræði berist þangað sem þess er þörf.
  • Einnig eru sett markmið um að vernda þýðingarmikil vistkerfi á borð við regnskóga og votlendi.

„Mannkynið hefur allt of lengi þakið hinn náttúrulega heim, sundrað honum, ofnýtt og eyðilagt; þrátt fyrir að við getum ekki án hans verið. Nú er tækifærið til að girða sig í brók og efla vef lífsins, svo hann geti staðið undir þunga komandi kynslóða,“ segir Inger Andersen forstjóri UNEP í yfirlýsingu.