COVID-19: Sænsk prinsessa gerist sjálfboðaliði

0
685
COVID-19, sænsk prinsessa
Soffía Svíaprinsessa og Karl Filippus prins. Mynd: Wikipedia.

Soffía Svíaprinsessa hefur lokið þriggja daga þjálfun til að gerast sjálfboðaliði í bakvarðasveit í baráttunni gegn kórónaveirunni.

Soffia prinsessa er í heiðursstjórn Sophiahemmet, hjúkrunarskólans og sjúkrahússins í Stokkhólmi og var því kunnugt um að þá þjálfun sem þar er boðið upp á. Hún mun ekki sinna sjúklingum heldur sinna störfum á borð við sótthreinsun tækja og öðru því sem ekki krefst faglegrar menntunar.

Í síðustu viku sögðum við frá starfsmönnum SAS sem misst höfðu vinnuna og skáru upp herör gegn kórónaveirunni. Malin Öhman sem við ræddum við í greininni gekkst undir sömu þjálfun hjá Sophiahemmet og Soffía prinsessa.

COVID-19, sænsk prinsessa
Soffía prinsessa undirgekkst sömu þjálfun og fyrrverandi flugliðar SAS. Mynd: Wikipedia.

Sophiahemmet rekur einkasjúkrahús sem hefur endurskipulagt starf sitt til að létta undir með almenna heilbrigðiskerfinu í baráttunni við COVID-19 faraldurinn.

Soffía prinsessa er þrjátíu og fimm ára að aldri og stundaði háskólanám í New York og Stokkhólmi og rannsakaði meðal annars framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð. Soffía sem er fædd Sofia Hellqvist gat sér gott orð fyrir fyrirsætustörf og þátttöku í raunveruleikaþáttum í sjónvarpi. Hún giftist Karli Filippusi prinsi og hertoga af  Värmland 2015.

Hertogynjan af Värmland á tvo syni með Hertoganum, Alexander prins og hertoga af Södermanland og Gabríel prins, hertoga af Dalarna.