Dagur hafsins: grundvöllur lífsins

0
934

Við sækjum súrefni, næringu og lyf til hafanna og er þá bara fátt eitt talið. Heilbrigð höf eru lykill að heilbrigðu mannkyni. Óstjórn og stjórnleysi á auðæfum sjávar hafa hins vegar verið með þeim hætti að vistkerfi hafsins eru að hruni komin. 8.júní er alþjóðlegur dagur hafsins.

Til þess að sporna við þessari vá og koma á heilbrigðum tengslum á milli manns og sjávar, verður mannkynið að endurskoða núverandi athafnir og lifnaðarhætti.

Höfin þekja langstærstan hluta plánetunnar eða meir en 70% yfirborðsins.  Ekki nóg með að helmingur súrefnisins komi úr sjónum, heldur leikur hann lykilhlutverk í að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Mannkynið sækir lífsviðurværi sitt til hafsins í ríkum mæli hvort heldur sem er fæðu eða lyf. Meir en einn milljarður manna sækir eggjahvítuefni að stærstum hluta til sjávar.   

Skelfileg óstjórn.

Lífið í sjónum á undir högg að sækja vegna athafna mannsins. Efnahagslíf heimsins treystir á hafið til að stunda viðskipti og vöruflutninga. Mikil mengun frá iðnaði hefur safnast fyrir í vistkerfum hafsins.    

En margt annað hefur valdið skaða. Stór hluti íbúa jarðar sækir fæðu til sjávarins og það hefur valdið ofveiði á fjölda tegunda og rányrkju á umhverfi sjávar Að mati vísindamanna hefur verið gengið um of á 90% af stofnum stórfiska og helmingur kóralrifja hefur verið eyðilagður. Þá er losun næringarefna frá ósjálfbæru fiskeldi og landbúnaði vaxandi vandamál, ekki síst ofauðgun

Útdauði einnar tegunar vegna ofveiði hefur áhrif á alla fæðukeðjuna. Þegar fleiri tengudir hverfa skapar það fyrr eða síðar ójafnvægi í öllu vistkerfinu.

Áratugur vonar

Alþjóðlegur dagur hafsins er haldinn á vegum Sameinuðu þjóðanna 8.júní. Markmiðið er að auka vitund almennings um hafið og mikilvægi þess fyrir velferð okkar.

„Nú þegar við vinnum að því að binda enda á heimsfaraldurinn höfum við einstakt tækifæri – og skyldu – til að leiðrétta samband okkar við náttúruna, þar á meðal höfin,“ segir António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Degi hafsins.

Að þessu sinni er Dagur hafsins haldinn við upphaf Áratugar hafrannsókna í þágu sjálfbærrar þróunar . Markmiðið er að efla alþjóðlega samvinnu um rannsóknir og nýsköpun til að bæta ástandið í sjónum um allan heim.

Þekking á höfunum er nauðsynleg til þess að bæta stjórnun og nýtingu. Allir geta lagt sitt af mörkum til að leysa vandamál í sjávarvistkerfum okkar. Hvorki einstök ríki né heimshlutar geta unnið að endurreisn upp á eigin spýtur.

Við þurfum á rannsóknum, nýsköpun og aðlögun ábyrgra starfshátta að halda. Ef ekki mun iðnaðarmengun, ofveiði og losun næringarefna eyðileggja sjávarvistkerfi okkar. Engan tíma má missa til að byrja á að endurskapa tengslin við hafið í þágu allra með nýsköpun að vopni og þekkingu sem við lærum af reynslunni.