Dáist að þrautseigju fólks

0
478

33772 492779106419 1145297 n

Norðurlandabúi mánaðarins að þessu sinni,  Helen María Ólafsdóttir, starfsmaður UNDP, Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að í hennar starfi sé því ekki að leyna að maður “sjái býsna ljóta hluti.” Og það er engin furða því Helen sem er fyrrvrandi sjónvarpsfréttakona á Stöð 2, hefur unnið í löndum á borð við Afganistan, Írak og Sri Lanka. Nú er hún staðsett í höfuðstöðvum stofnunarinnar í New Ork þar sem hún starfar fyrir þá deild UNDP sem fæst við að koma í veg fyrir átök og endurreisa ríki eftir slíkt.

 Fyrsta spurningin er sígild. Hvernig stóð á því að hún fór að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum?

Mig langaði alltaf til að vinna hjá SÞ. Einkageirinn höfðaði aldrei til mín því mig langaði til að starfa við eitthvað þar sem ég gæti látið got af mér leiða. Ég trúi enn á Sameinuðu þjóðirnar og í starfi Sameinuðu þjóðanna fáum við einstakt tækifæri til þess að hafa aðgang að fólki sem tekur mikilvægar ákvarðanir. Við þurfum að nálgast þetta af virðingu og nota til að hafa áhrif á jákvæðan hátt.

Ég sótti einfaldlega um starf hjá UNDP í Afganistan til að vinna að þróunaráætlun um landið og var svo heppin að fá starfið. Hins vegar fékk ég fyrsta tækifærið til að vinna erlendis hjá Utanríkisráðuneytinu. Ég vann á Sri Lanka og það opnaði mér dyr til að hasla mér völl í alþjóðlegu þróunarstarfi. 

Og hvert hefur leiðin legið í starfi, hingað til?

Fyrsta starfið var reyndar I fréttamennsku. Ég þurfti að velja á milli fréttamennskunnar og þróunarstarfsins. Ég hefði kosið alþjóðlega fréttamennsku, en ég áttaði mig á því að ég er ekki nógu frek! Ég er of kurteis og kann ekki við að þurfa að trufla fólk.

Ég sótti um að vinna fyrir utanríkisráðuneytið í Strassborg til að styðja fastanefndina og var í því í ár. Ég var ekki tilbúin að leggja diplómatískt starf fyrir mig og fékk starf hjá Evrópuráðinu í Strassborg í stjórnmáladeildinni. Strassborg er yndisleg borg en mig langaði til að skoða heiminn og fór til Afganistan til að reyna fyrir mér í lausamennsku í blaðamennsku fyrir íslenska fjölmiðla. Þetta var svolítið eins og þegar fólk tekur eitt ár til að fara í bakpokaferðalag en munurinn sá að ég hélt kyrru fyrir í Kabúl. Þetta var frábært ár!
Síðan var ég mjög heppin þegar mér bauðst að verða talsmaður norrænu Friðargæslusveitarinnar á Sri Lanka, í gegnum utanríkisráðuneytið. Ég er enn þann dag í dag þakklát þeim fyrir að gefa mér þetta tækifæri því ég var bara 29 ára gömul. Eftir hálft annað ár sem talsmaður, fékk ég ráðgjafastöðu en þá syrit í álinn og ég fór þaðan þegar landið var að sökkva á ný ofan í fen borgarastríðs og fjarað hafði undan friðargæslustarfinu.

Frá Sri Lanka fór ég aftur til Afganistan og fékk fyrsta starf mitt hjá UNDP við að aðstoða við samantekt á Þróunaáætlun fyrir landið. Þetta var hörkuvinna og mikill þrýstingur á lítinn hóp að lára verkið; unnið 16 tíma á sólarhring og teningnum var kastað. Ég eignaðist frábæra vini í leiðinni. Að þessu loknu sótti ég um vinnu hjá UNDP í Írak sem ráðgjafi í þeirri deild sem á að koma í veg fyrir átök og sinna enduruppbyggingu. Ég vann við þetta í fjögur og hálft ár og féll fyrir Írak, Írökum og Mið-Austurlöndum.”

Sumir halda að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum feli aðallega í sér að hanga á lúxúshótelum á milli stöku ræðuhalda. Er eitthvað til í þessu eða hefurðu kannski komist í hann krappann í starfi? 

Mér kemur fyrst í hug fimbulkuldinn sem herjaði á mig í Afganistan! Þá var í níu lögum af fatnaði að reyna að skrifa skýrslu í herberginu mínu. Nú eða að þurfa að sitja af sér margra daga sandbyl í Írak. Jú, auðvitað ferðast maður að einhverju marki en hotel eru öll eins í mínum huga. Ég kýs að vera heima hjá mér og þegar ég á frí, fer ég oftst heim til Íslands til að vera með fjölskyldu og vinum.

Hver hefur verið stærsta áskorunin hingað til? 

Þær hafa verið margar. Við fáumst við það að að styðja við bakið á og reyna að breyta og bæta stjórnunarhætti ríkisstjórna. Stærsta áskorunin fellst í því að fylgja eftir. Erfiðast var að hafa ekki greiðan aðgang að þeim sem sátu hinum megin við borðið. Það krefst mikillar elju og tíma að byggja upp tengsl við fólk þegar maður er niðurnjörfaður eins og raunin var á svokallaða Græna svæðinu í Bagdad. En með því að vera iðin við kolan og kannski smá óþolandi – tókst mér að ýta úr vör nokkrum spennandi verkefnum. Ég held ég sé stoltust af verkefni sem fól í sér að setja á stofn deildir sem sinntu fjölskylduvernd á lögreglustöðvum. Það kostaði mikla fyrirhöfn og vinnu en er nú komið til framkvæmda. 

Hafa Norðurlönd af einhverju sérstöku að státa innan sameinuðu þjóðanna, að þínu mati? 

Ég held að Norðurlönd njóti velvildar innan SÞ. Við eru málsvarar friðar og aukins jafnréttis handa öllum. 

Þú hefur haft talsverð kynni af Arabaheiminum. Það ríkti mikil bjartsýni á betri tíma þegar arabíska vorið braust út. Ertu bjartsýn á framfarir í þessum heimshluta?

Maður verður alltaf að vera bjartsýnn í þessu starfi, annars missir maður móðinn og þá hefur maður gefist upp. Ég held að það hafi verið rangnefni að kenna þessa atburði við Arabaheiminn í heild. Löndin eru ólík innbyrðis og ekki setjum við Noreg og Spán undir sama hatt. Menningin og hugarfarið er margbreytilegt og saga hvers lands einstök. Ég tel þó að smátt og smátt sé að verða vitundarvakning. Ný fjölmiðlun og aukinn aðgangur að upplýsingum ýtir undir þetta, en þetta mun taka langan tíma og það er ekki hægt að ráðskast með þetta utanfrá. Samfélögin verða að breytast innanfrá. Okkar starf er að útvega þeim úrræðin.

Mín reynsla er sú að við, manneskjurnar, erum öll mjög lík innst inni. Við viljum öll lifa í friði, hafa sómasamlega vinnu, eiga frí með fjölskhyldunnni og borða góðan mat. Þetta er ekkert flóknara. Í mínu starfi sjáum við andstyggilega hluti, en ég er alltaf jafn full undrunar og aðdáunar á seiglu fólks. Ég dáist að hvort heldur sem er fólkinu sem fór til vinnu sinnar daglega í Bagdad þrátt fyrir sprengjur og öryggisleysi; vörðunum eða í Afganistan sem sátu utandyra í fimbulkulda og gættu alþjóðlega starfsliðsins; nú eða Tamílunum sem lögðu sig í lífshættu við það eitt að mæta í vinnuna. Þetta eru hinar raunverulegu hetjur.