Danir í forsvari fyrir menntun á alheimsvísu

0
421

helle og ban

26. september 2012. Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Dana er ekki fyrr búin að sleppa stjórnartaumunum eftir formennsku Dana í Evrópusambandinu en hún haslar sér völl á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Danski forsætisráðherrann er einn af níu þjóðarleiðtogum sem verða í forystu nýs átaks framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna: ”Menntun í fyrirrúmi ” (Education First).

Markmiðið með ”Menntun í fyrirrúmi” er að vekja athygli á skorti á gæðamenntun í fátækustu og verst settu ríkjum heims auk þess að beina kastljósinu að mikilvægi menntunar í baráttunni gegn fátækt og til að efla stöðugleika og sjálfbæra þróun

Thorning-Schmidt verður viðstödd þegar hún verður í dag útnefnd ”SÞ-meistari“ ásamt hinum átta þjóðarleiðtogunum og hefur það verkefni að berjast fyrir menntunarmarkmiðum Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.   

Thorning-Schmidt segist stolt af því að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafi beðið Danmörku um að gegna sérstöku hlutverki í menntamálum á heimsvísu.

”Menntun er forsenda fyrir hagvexti og velmegun og það er reynsla okkar Dana,“ segir Helle Thorning-Schmidt. “ Okkur ber að tryggja að öll börn í fátækustu löndum heims, jafnt stúlkur sem drengir , geti gengið í skóla. Ég mun sannarlega leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að draga athyglina að þessu mikilvæga málefni með það fyrir augum að gæðamenntun verði fyrir alla en ekki aðeins fáa útvalda. ”
Sjá nánar hér: http://globaleducationfirst.org/index.html

Mynd: Thorning-Schmidt og Ban Ki-moon á fyrsta fundi danska forsætisráðherrans með erlendum framámanni eftir að hún tók við embætti 11. október 2011. SÞ-mynd: Eskinder Debebe