Drög lögð að þróun eftir þúsaldarmarkmiðin

0
522
Slum photo

Slum photo
1. ágúst 2012. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur skipað nefnd háttsettra karla og kvenna til þess að leggja drög að þróunarmarkmiðum eftir 2015. Það ár ber svokölluðum Þúsaldarmarkmiðum um þróun (MDGs) að hafa verið náð. Alþjóðasamfélagið samþykkti á svokölluðum þúsaldarfundi í byrjun þessarar aldar og árþúsunds, að setja markmið í baráttunni gegn fátækt og skyldi þeim náð fyrir 2015.
Nefndin mun halda fyrsta fund sinn í lok september í tengslum við Allsherjarþingið og skila niðurstöðum sínum á fyrri hluta árs 2013 en framkvæmdastjórinn mun nýta þær í skýrslu til aðildarríkjanna.  

“Ég hlakka til að fá ráðleggingar nefndarinnar um hvað tekur við 2015 með áherslu á sameiginlega ábyrgð allra ríkja þar sem barátta gegn fátækt og sjálfbær þróun verða  í öndvegi, “ sagði Ban.

Samkvæmt nýlegri rannsókn hefur árangur náðst við að ná mörgum þeirra átta markmiða sem voru sett með samþykkt Þúsaldarmarkmiðanna og þótt ljón séu á veginum er hægt að ná þeim öllum með öflugu samstilltu átaki. Þótt þrjú ár séu til stefnu hefur mikilvægum markmiðum verið náð í baráttunni gegn örbirgð, útvegun hreins drykkjarvatns og að bæta kjör íbúa fátækrahverfa. Starf nefndarinnar verður samræmt vinnu milliríkjastarfshóps sem á að þróa Sjálfbær þróunarmarkmið samkvæmt ákvörðun Rio+20 ráðstefnunnar um Sjálfbæra þróun í Brasilíu í júní.

Þrír deila formennsku í nefndinni: Susilo Bambang Yudhoyono , forseti Indónesíu; Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
Á meðal annara tuttugu og þriggja nefndarmanna eru tvær heimskunnar konur; Rania Jórdaníudrottning og Graça Machel félagi í the Elders, samtaka fyrrverandi þjóðarleiðtoga en hún er fyrrverandi forsetafrú Mósambík og eiginkona Nelson Mandela. Einnig má nefna eina Norðurlandabúann, Gunillu Carlsson, þróunarmálaráðherra Svía.

Mynd: Barn í Karial-fátækrahverfinu í Dhaka í Bangladesh. Talið er að einn milljarður manna búi í fátækrahverfum. SÞ-mynd: Kibae Park