“Ég sá hnífinn og ég vissi”

0
479

FGM 2

6. febrúar 2013. “Ég sá hnífinn og vissi hvað myndi gerast. Ég hrópaði en fann engin orð,” sagði Kady, stúlka frá Burkina Faso, þegar hún lýsti umskurðinum í viðtali við IRIN fréttastofuna. Oft er stúlkum ekki sagt frá því hvað sé í aðsigi til að tryggja að þær hlaupist ekki á brott. Kynfæra umskurður kvenna er stundaður í mörgum Afríkuríkjum auk nokkura ríkja í Asíu og Mið-Austurlöndum. Alþjóðlegur dagur gegn umskurði kvenna er haldinn 6. febrúar á hverju ári í því skyni að beina kastljósinu að þessu máli.

Fjórar útgáfur eru af umskurði kvenna en sú grófasta felur í sér að öll ytri kynfæri konunnar eru numin á brott. Samkvæmt hefðinni er þetta gert með hníf eða oddhvössu blaði og síðan saumað fyrir með þyrnum eða nál. Engri svæfingu er beitt og lítt eða ekki sótthreinsað. Oftast er aðgerðin framkvæmd af einstaklingi sem nýtur sérstakrar virðingar í samfélaginu og er viðstaddur barnsfæðingar.

Dr Rosemary Mburu, kvensjúkdómalæknir í Kenía telur að um 15% allra umskorinna stúlkna blæði út eða deyi af völdum sýkinga. Hins vegar eru 18% umskurða nú framkvæmdir á heilbrigðisstofnunum og fer slíkt í vöxt. Þökk sé vitundarvakningu í kjölfar herferða Sameinuðu þjóðanna og frjálsra félagasamtaka hefur árangur þó náðst við að vinna gegn umskurði.

Margar kvikmyndir hafa verið gerðar um þetta efni en sú frægasta er ef til vill Moolaadé eftir leikstjórann Ousmane Sembène, frá Senegal. 

Talið er að 140 milljónir kvenna í heiminum séu umskornar og eru 3 milljónir stúlkna í hættu á hverju ári. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, beinir sjónum sínum sérstaklega í ár að þætti heilbrigðisstarfsfólks í því að umskera stúlkur og hvernig lögð er blessun yfir þennan sið og hann festur í sessi með því móti.

Takið þátt í Google+ Hangout 6. febrúar með UNFPA, UNICEF og öðrum sérfræðingum.. #endfgm http://bit.ly/WGlrCa