Einar Þór þekkir bæði HIV og COVID-19 af eigin raun

0
919
Alnæmisdagurinn

Töluverð líkindi eru á milli HIV og COVID-19 smits segir Einar Þór Jónsson sem hefur fengið báðar veirur.

Alnæmisdagurinn
Mynd Þorkell Þorkelsson

„Líkindin má finna í einangruninni. Smitótti er einnig til staðar nú eins og þá. Smitsjúkdómadeildin A7 er enn við lýði. Öll í þessum sóttvarnargöllum. Við sem smituðumst af HIV á níunda áratugnum þekkjum þá. Það er ekkert við heilbrigðisfólk að sakast. Það fylgir sóttvarnarreglum. Verður ópersónulegt í göllunum,” skrifar Einar Þór. Hann er framkvæmdastjóri HIV-Ísland íslensku alnæmissamtakanna. Hann skrifar um reynslu sína á vefsíðu samtakanna í tilefni af Alþjóða alnæmisdeginum sem er haldinn í dag 1.desember.

Alnæmisdagurinn 1.desember

António Guterres aðalaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var í hópi fjölmargra þegar hann benti á í ávarpi á Alþjóða alnæmisdeginum að draga mætti „marga lærdóma af baráttunni gegn HIV nú þegar við glímum við COVID-19.”

Einar Þór heldur áfram í grein sinni:

„Ég smitaðist af HIV og ég fékk COVID. Ég var með háan hita þegar ég fór inn á göngudeildina nú í októbermánuði. Var með sýkingu í öðru lunga. Mér var boðið að vera yfir nótt. Ég gat ekki hugsað mér það. Það var ekki óttinn heldur fann ég ekki öryggi í því að vera lokaður inni á spítala. Þekkti gömlu tilfinninguna sem læddist að mér. Tilfinningin sem við HIV jákvæðu bárum í svo mörg ár. Dauðaótta.”

Breytt samfélag

Alþjóða alnæmisdagurinnEinar Þór segir að samfélagið hafi breyst á þeim tíma sem liðin er frá því þegar um 40 ungir Íslendingar létust úr alnæmi. „Upplýsingagjöfin er miklu meiri. Sjúklingum er sýndur skilningur. Á þá er hlustað. Þeir vita sínu viti. Fyrir þrjátíu árum voru sjúklingar sjúklingur. Þeir afhentu heilbrigðisyfirvöldum stjórnina á lífi sínu.”

En sumt hefur ekki breyst að mati Einars Þórs.

„Tilfinningar. Í þessum HIV-faraldri og svo COVID-faraldri kemur óttinn aftan að fólki. Hann kemur að einstaklingum og ógnar fjölskyldu þeirra. Hann breytir lífinu. Annað hættir að skipta máli. Fyrir þrjátíu árum vorum við samkynhneigðu karlarnir hættan sem skapaði óttann. Við vorum lítill hópur með afmarkaðan sjúkdóm og settir út á kantinn. Þar sem HIV herjaði á lítinn hóp lagði veiran ekki hagkerfið á hliðina eins og nú.”

Ekki allt eins

Framkvæmdastjóri HIV Ísland segir margt líkt með HVI og COVID-19 en þó sé margt ólíkt.

„Við upplifðum sóttvarnaraðgerðir sem voru tilkomnar vegna fordóma. Ábyrgðin var sett á okkur hommana. Nú er ábyrgðinni dreift um samfélagið. Við tökum öll þátt og samþykkjum að þau sjúku séu í einangrun í tvær til fjórar vikur. Alein. Hitta engan. Allskonar fólk hittir engan nema þurfa hjálparhönd. Hún er veitt með hönskum og horft á í gegnum grímu.”

Og eins og Einar Þór bendir á er hagur HIV smitaðra allt annar í dag, en var í upphafi alnæmis-faraldursins.

Þegar HIV var dauðadómur

Alnæmisdagurinn
Mynd: Þorkell Þorkelsson

„Við sem smituðumst þegar HIV var dauðadómur vorum upp til hópa ung og hraust, með fullt af löngunum. Ungir karlar með ósamþykktar langanir í miklum meirihluta. Þannig er það ekki í dag. Þeir sem smitast af HIV geta með lyfjum lifað eðlilegu lífi. Við sem lifum með HIV tökum eina pillu daglega og smitum ekki frá okkur. En við erum mörg með ör á sálinni eftir stóra dóminn. COVID-ið minnir okkur á þau,” skrifar Einar Þór.

Hann heldur áfram: „Ég hef fengið báðar veirurnar. Önnur minnir á hina. En eru samt ekkert líkar. Ég veit að kófið líður hjá. Við munum læra af þessu. Haustið hefur rifið í en ég veit að á endanum verður þessi vírus minningin ein. Minning eins og vinir sem fengu HIV, börðust og dóu. Þeir eru minning sem lifir.”

Þann 1. desember höldum við upp á Alþjóðlega alnæmisdaginn. Einkunarorðinn í ár eru Samstaða á heimsvísu, sameiginleg ábyrgð. „Það á við um HIV. Það á við um COVID,” skrifar Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri HIV-Ísland.