Einn blaðamaður er drepinn fjórða hvern dag

0
967
Alþjóðlegur dagur til að binda enda á refsileysi við glæpum gegn blaðamönnum
2. nóvember heldur UNESCO Alþjóðlegan dag til að binda enda á refsileysi við glæpum gegn blaðamönnum

Nærri tólf hundruð blaðamenn hafa verið drepnir við öflun og miðlun frétta til almennings í heiminum undanfarin fjórtán ár (2006-2019). Að meðaltali er það einn blaðamaður á fjögurra daga fresti. 2. Nóvember er Alþjóðlegur dagur til að binda enda á refsileysi við glæpum gegn blaðamönnum.

Í níu skiptum af hverjum tíu er morðingjunum ekki refsað. Refsileysi hefur í för með sér fleiri dráp. Oft og tíðum er það til marks um stigmögnun átaka og hrun laga og réttarkerfis.

COVID 19 eykur vandann

Í ávarpi á Alþjóðlegum degi til að binda enda á refsileysi við glæpum gegn blaðamönnum, segir António Guterres aðalaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að nú hafi COVID-19 enn bætt á fyrirliggjandi vanda.

„Heimsfaraldurinn hefur leitt í ljós nýjar hættur fyrir blaðamenn og starfsmenn fjölmiðla. Líkamlegt ofbeldi hefur færst í vöxt,“ segir Guterres.

Að minnsta kosti tuttugu og einu sinni var ráðist á blaðamenn sem öfluðu frétta af mótmælum á fyrri helmingi ársins 2020. Það er jafnoft og allt árið 2017. Þá hafa hindranir í starfi aukist. Nefna má hótanir um málshöfðun, fangelsanir, frelsissviptingu og aðgangshindranir. Síðast en ekki síst hefur verið látið undir höfuð leggjast að rannsaka og saksækja fyrir glæpi gegn blaðamönnum.

„Þegar ráðist er á blaðamenn sýpur samfélagið seyðið af því,“ segir aðalframkvæmdastjórinn. „Ef við látum undir höfuð leggjast að vernda blaðamenn, þá erum við verr upplýst og getum síður tekið ákvarðanir byggðar á staðreyndurm. Þegar blaðamenn búa ekki við öryggi til að sinna starfi sínu, hverfur mikilvæg vörn gegn þeim faraldri rangfærslna sem viljandi og óviljandi er komið af stað á netinu.“

Franskir blaðamenn drepnir

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun árið 2013 til höfuðs refsileysis við glæpum gegn blaðamönnum. Í ályktuninni felst viðurkennining á því hve víðtækar afleiðingar slíkt refisleysi hefur fyrir allt samfélagið.

Samþykkt var að 2.nóvember ár hvert skyldi vera Alþjóðlegur dagur til að binda enda á refsileysi við glæpum gegn blaðamönnum. Þessi dagur varð fyrir valinu því 2.nóvember 2013 voru tveir franskir blaðamenn myrtir við störf sín í Malí.