2013: Enn eitt banvænt ár hjá blaðamönnum

0
562

 reporters

19.desember 2013. Árið sem er að líða hefur verið enn eitt lífshættulegt ár fyrir stétt blaðamanna.

71 blaðamaður hefur verið drepinn á þessu ári að sögn samtakanna Blaðamenn án landamæra (Reporters Without Borders). Þá færist í vöxt að blaðamönnum sé rænt (+129%) og sem fyrr er algengt að þessi stétt sæti ofbeldi.
Ofbeldi gegn starfsmönnum fjölmiðla grefur undan getu og frelsi blaðamanna til að sinna starfi sínu, en einnig rétti borgara til að fá óvilhallar upplýsingar, segir Irina Bokova, forstjóri UNESCO, Mennta, vísinda og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
UNESCO sem fjallar um fjölmiðlafrelsi fyrir hönd SÞ hefur hleypt af stokkunum herferð til að tryggja öryggi blaðamanna. Bokova fordæmir ofbeldi gegn starfsmönnum fjölmiðla í Sýrlandi og Írak.l

“Alþjóðasamfélagið ætti að beita sér gegn refsileysi og við skulum minnast þess að innan skamms verður minnst 7 ára afmælis ályktunar Öryggisráðsins númer 1738 um öryggi blaðamanna,” segir Christophe Deloire, framkvæmdastjóri Blaðamanna án landamæra. 

Flestir blaðamenn eða 24 hafa verið drepnir í Asíu og 23 í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Mun færri voru drepnir í ár í Afríku sunnan Sahara eða10 í stað 21, og munar þar mestu um að færri létust í Sómalíu. Svipað ástand var í Suður-Ameríku 12 létust 2013 en 15 árið áður.

“Of margir atvinnublaðamenn og borgaralegir blaðamenn hafa verið drepnir í átökunum í Sýrlandi og oft er spjótum beint sérstaklega að þeim af hálfu hinn ýmsu vígahópa,” segir Bokova forstjóri UNESCO. “Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af lausamönnum því þeir eru oft verr þjálfaðir en útsendir blaðamenn frá ritstjórnum í því að glíma við hættuástand.”

Sýrland, Sómalía og Pakistan voru enn sem fyrr í hópi fimm hættulegustu ríkja heims fyrir blaðamenn. 39% dauðsfalla voru á átakasvæðum svo sem Sýrlandi, Sómalíu, Malí, Chhattisgarh-héraði í Indlandi, Balochistan-héraði í Pakistan og rússneska lýðveldinu Dagestan. Af 71 blaðamanni sem létust 2013 unnu 37% hjá prentmiðlum, 30% í útvarpi, 30% sjónvarpi og 3% hjá vefmiðlum. 96% voru karlmenn.
Fjöldi blaðamanna sem létust í starfi fækkaði um 20% 2013 miðað við fyrra ár en það var “óvenjulega banvænt” en þá voru 88 drepnir. Til samanburðar voru þeir 67 árið 2011, 58 2010 og 75 2009.

Framkvæmdastjóri Blaðamanna án landamæra hvatti til harðari aðgerða til þess að enda refsileysi þegar hann ávarpaði fund Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í New York 13.desember en þema fundarins var “Vernd blaðamanna”. Samtökin vilja að “vísvitandi árásir á blaðamenn, fjölmiðlastarfsmenn og annað starfsfólk” verði skilgreint sem stríðsglæpir hjá Alþjóða glæpadómstólnum.