Ekki glæpur að halda á myndavél

0
417

Pillay2

24.júní 2014. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst þungum áhyggjum af nýuppkveðnum dómum yfir blaðamönnum í Egyptalandi.

Þrír blaðamenn Al Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar voru dæmdir í sjö til tíu ára fangelsi, en ellefu að auki voru dæmdir að sér fjarstaddir. Manntéttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt þessa dóma.

Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að dómarnir rétt eins og nýlegir dauðadómar yfir 183 félögum í Múslimska bræðralaginu, séu liður í málsóknum og réttarhöldum sem hafi „brotið í bága við viðteknar réttarreglur og gengið í berhögg við alþjóðleg mannréttindalög.”

„Starfsmenn fjölmiðla sem starfa í Egyptlandi búa nú við einstaklega erfitt og hættulegt starfsumhverfi. Þá ber að vernda en ekki ofsækja,” bætti hún við.
Pillay benti einnig á að sex blaðamenn hafa verið drepnir í Egyptalandi frá ágúst 2013. „
Egypskir jafnt sem erlendir blaðamenn, þar á meðal bloggarar, hafa sætt harðræði, handtökum og málsókn og sætt árásum óþekktra ofbeldisseggja. Slíkt er nánast daglegt brauð.”

Pillay benti enn á að blaðamönnum væri gefið að sök að „raska einingu þjóðarinnar…rangan fréttaflutning og aðild að hryðjuverkasamtökum”. Hún segir að slíkar ásakanir séu svo almenns eðlis og óljósar að það styrki þá trú að skotmarkið sé í raun sjálft tjáningarfrelsið.”

„Það er ekki glæpur að halda á myndavél eða segja frá mörgum hliðum hvers máls,”sagði PIllay. „Það er ekki glæpur að gagrnýna yfirvöld eða að taka viðtöl við fólk sem hefur óvinsælar skoðanir. Hvorki ber að handtaka blaðamenn eða aðra borgara, né sækja til saka, berja eða reka úr starfi fyrir að fjalla um viðkvæm mál.”