Ísland ekki með í friðargæslu SÞ

0
526
NordicPeacekeeper

NordicPeacekeeper

Sameinuðu þjóðirnar reka fjórtán friðargæslusveitir í heiminum auk sérstakrar pólitískrar sveitar í Afganistan.

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna á Austur Tímor (UNMIT) lauk hins vegar hlutverki sínu um síðustu áramót. Í friðargæslunni eru meir en 110 þúsund manns, jafnt einkennisklæddir sem óbreyttir borgarar auk sjálfboðaliða. Norðurlöndin leggja sitt af mörkum og leggja til 350 manns víða um heim, auk sveitarinnar á Austur Tímor. Enginn Íslendingur er þessa stundina við friðargæslu á vegum íslenska ríkisins á vettvangi Sameinuðu þjóðana, þótt nokkrir starfi við hana fyrir reikning sjálfra samtakanna.

Svo dæmi séu tekin eru norrænar sveitir í Afríku sem hluti af friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Líberíu (UNMIL), í Kongó (MONUSCO) og í Suður-Súdan (UNMISS). Tveimur þessara sveita stýra norrænar konur; Karin Landgren fer fyrir Líberíu-sveitinni og Hilde Frafjord Johnson, frá Noregi sem fréttabréf UNRIC ræddi við í síðasta tölublaði, er við stjórnvölinn í Suður-Súdan. 70 Norðurlandabúar eru þar að störfum. Starf þeirra felst í því að tryggja og öryggi í sessi og hjálpa ríkisstjórn yngsta ríks heims að skjóta stoðum undir þróun. Mörg ljón eru í veginum og spenna er á landamærunum við Súdan þannig að þörf er á friðargæslu næstu mánuði að minnsta kosti.  

NordicUN-MAP

Ísland hefur ekki her en hefur lagt friðargæslu lið með öðrum hætti, síðast með því að leggja til lögreglumenn til Líberíu-sveitarinnar. Öll hin Norðurlöndin hafa tekið þátt í friðargæslu í Mið-Austurlöndum (UNTSO). Finnland hefur að auki leikið stórt hlutverk í Líbanon (UNIFIL) en nærri lætur að fjöldi finnskra hermanna þar sé helmingur norræna framlagsins til friðargæslunnar. Norðurlandabúar voru einnig fjölmennir í hinni skammlífu sendisveit til Sýrlands (UNSMIS) en henni stýrði norski hershöfðinginn Robert Mood. Sveitin var leyst upp eftir að átök mögnuðust.

Auk fyrrnefndra verkefna eru Finnar og Svíar þátttakendur í eftirliti Sameinuðu þjóðanna í Indlandi og Pakistan (UNMOGIP) sem fylgist með að vopnahlé sé virt á milli ríkjanna tveggja í hinu umdeilda héraði Jammu og Kashmir.

Fleiri smærri verkefni eru hér og þar í heiminum. Einn Norðmaður er í Kosovo (UNMIK), einn Svíi á Haiti (MINUSTAH) og einn Dani í Afganistan (UNAMA). Danir taka svo þátt í verkefni Sameinuðu þjóðanna undir bandarískri stjórn í Kóreu en þar er aðeins einn maður að taka þátt í að fylgjast með vopnahléi við vopnahléslínuna.

Að auki leggja svo Norðurlöndin friðargæslu NATO lið, oft í samvinnu við SÞ, þar á meðal í ISAF í Afganistan og í Kosovo og á austurodda Afríku. Tekið skal fram að þetta yfirlit á við um þá Norðurlandabúa sem eru sendir og kostaðir af ríkjunum sjálfum en til viðbótar eru svo einstaklingar sem vinna beint fyrir Sameinuðu þjóðirnar.