Er einhver Zlatan á meðal vor?

0
60
Zlatan Ibrahimovic, einn þekktasti knattspyrnumaður Norðurlanda
Zlatan Ibrahimovic, einn þekktasti knattspyrnumaður Norðurlanda. Mynd: Дмитрий Неймырок/ Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0

Fótbolti fyrir markmiðin. Football for the Goals. Þegar litið er á liðskipan landsliðanna á Evrópumótinu karla í knattspyrnu, Euro 2024, fer ekki framhjá neinum hversu fjölbreyttur uppruni leikmanna er.

Á sama tíma og stjörnur á borð við Frakkann Kylian Mbappé, Spánverjann Lamine Yamal, Þjóðverjann Lamal Musiala og Englendinginn Jude Bellingham eru löndum sínum til sóma í keppninni í Þýskalandi dylst engum að ræturnar liggja annars staðar.

Þetta er þó ekkert nýtt. Sá knattspyrnumaður sem borið hefur til dæmis hróður sænskrar knattspyrnu hvað víðast, er sonur innflytjenda. Zlatan Ibrahimović er Króati í móðurætt og Bosníumaður í föðurætt. Eins og fram kom í fyrri grein er UEFA skipuleggjandi Euro 2024 þátttkandi í átaki Sameinuðu þjóðanna, sem nefnist  Fótbolti fyrir markmiðin – (Football for the Goals) og er þar vísað til Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Íslenska landslið karla náði sínum besta árangri á Evrópumótinu 2016 og Heimsmeistarakeppninni 2018. Hér fagna Norðurlandabúar íslenska liðinu.
Íslenska landslið karla náði sínum besta árangri á Evrópumótinu 2016 og Heimsmeistarakeppninni 2018. Hér fagna Norðurlandabúar íslenska liðinu. Mynd: Victoria Henriksson/Norden.org

18% landsmanna innflytjendur

Nokkrir íslenskir landsliðsmenn hafa átt erlent foreldri en hins vegar er efnahagslegt aðdráttarafl Íslands ekki farið að skila sér verulega í knattspyrnunni. 18% landsmanna eru innflytjendur, langflestir Pólverjar, en enn sem komið er hefur það ekki skilað sér í allra fremstu röð.

Stefán Pálsson sagnfræðingur og áhugamaður um knattspyrnu bendir á að flutningar til dæmis Pólverja til Íslands sé tiltölulega nýtt fyrirbæri.

„Öfugt við flóttafólk þá litu Pólverjarnir í fyrstu ekki svo á að þeir væru endilega komnir til að vera,” segir Stefán. „Pólverjarnir sem héldu að þeir væru ekkert að fara að stoppa vörðu sumarfríunum heima í Kraká en ekki á N1-mótinu á Akureyri. Núna erum við með miklu ráðsettara pólskt samfélag og þá styttist í fótboltamennina úr þeirra röðum.“

Fótbolti fyrir markmiðin - Football for the goals
Fótbolti fyrir markmiðin – Football for the goals

Landsliðsfólk

Nokkur tímamót urðu ef til vill nýverið þegar Eva Sokołowska var valin í landslið kvenna sextán ára og yngri. Að Pólverjum frátöldum má nefna nokkra leikmenn í efstu deild karla. Danijel Duric leikmaður Íslandsmeistara Víkinga er fæddur í Búlgaríu af búlgörsku og serbnesku kyni og hefur leikið einn A-landsleik auk leikja með yngri landsliðum.

Leikmenn frá fjölmörgum ríkjum, til dæmis Danmörku og frá Balkanskaga hafa auðvitað komið gagngert til Íslands til að spila með íslenskum liðum og sumir orðið gjaldgengir í íslensk landslið í krafti ríkisborgararéttar. Ekki þarf svo að koma á óvart að börn íþróttafólksins hasli sér völl og má nefna FH-inginn Vuk Dimitrijevic í þessu sambandi. Vuk sem leikið hefur nokkra unglingalandsleiki er sonur Serbans Branislav Dimitrijevic sem hingað kom til að leika handbolta.

Pólska landsliðið fyrir leik gegn Japan í heimsmeistarakeppninni 2018. Robert Lewandowski, frægasti leikmaður Póllands, er lengst til vinstri.
Pólska landsliðið fyrir leik gegn Japan í heimsmeistarakeppninni 2018. Robert Lewandowski, frægasti leikmaður Póllands, er lengst til vinstri. Mynd: WikimediaCommons/Светлана Бекетова -CC BY-SA 3.0

Stefán Pálsson minnir á að ekki megi gleyma að áhrif t.d. Pólverja séu mikil í ýmsum öðrum íþróttagreinum en fótbolta, ekki síst blaki og margir útlendingar hafa komið við sögu í handbolta.

Margir þeirra sem sest hafa að hér á landi eru ekki í hópi hálaunafólks. Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi í Reykjavík, sem er sjálfur af pólskum ættum, minnir á að þó nokkur kostnaður fylgi þátttöku í unglingalandsliðum. Kostnaður við æfingagjöld getur einnig verið íþyngjandi, en Pawel segir að nú sé komið til móts við þetta í höfuðborginni.

„Í Reykjavík erum við núna byrjuð að borga fyrir móðurmálskennslu barna sem hafa erlendan bakgrunn. Það þýðir að þau þurfi ekki að nota frístundakort í það,” segir Pawel.

Hinir lúxemborgísku Džogović og Rodrigues

Kannski veitir Íslandi ekki af liðsstyrk. Benda má á að land á borð við Lúxemborg, áþekkrar stærðar og Ísland, hefur skotið okkur ref fyrir rass á síðustu misserin. Og ekki fer hjá því að tekið sé eftir að ekki eru öll nöfn landsliðsmannanna sérlega lúxemborgísk að sjá en í síðasta leik liðsins mátti sjá eftirnöfn á borð við Mahmutović og Džogović, Sinani, Olesen og Rodrigues.