Evrópa: Á meðan hitamet eru slegin í suðri, skelfur norðrið úr kulda

0
60
Reykjavík á gamlaársdag.
Reykjavík á gamlaársdag. Mynd: Teitur Þorkelsson - með góðfúslegu leyfi.

Loftslagsbreytingar. Á sama tíma og hitamet voru slegin víðs vegar á meginlandi Evrópu sunnan- og austanverðu, var desember óvenju kaldur á Íslandi.

„Í lok mánaðar var óvenju hlýtt í desember í Evrópu,” útskýrir Halldór Björnsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „ En meðan suðlægir vindar fluttu heitt loft norður á bóginn  í Evrópu fluttu norðlægir vindar kalt loft suður á bóginn  yfir Atlantshafinu nærri Íslandi. Þetta varð til þess að desember 2022 er kaldasti desember mánuður á landinu síðan 1973 og sá kaldasti í 100 ár í Reykjavík. Þessi umskipti voru þeimmun merkilegri vegna þess að  haustmánuðir voru óvenjuhlýir á Íslandi  og nóvember mánuður var sá hlýjasti frá upphafi.”

Hitakort
Hitastigskort. Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO)

Á meðan Íslendingar og einkum höfuðborgarbúar skeggræddu vetrarveður og ófærð, var hitinn yfir 20 °C á ýmsum stöðum á meginlandi Evrópu. Hitamet voru slegin frá Spáni í suðri til austurhluta Evrópu þar sem frosthörkur eru tíðar á þessum árstíma.

Sól á Tenerife.
Tenerife. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Sumir hafa dregið þá ályktun af þessu að hlýnun jarðar séu staðlausir stafir. Halldór Björnsson vísar þessu á bug.

„Kuldaköst eins og það sem varð á Íslandi í  desember verða sífellt fágætari eftir því sem jörðin hlýnar meira. Það gerir þau að vissuleiti fréttnæmari, en hlýnun jarðar birtist í meðaltölum hita, hitabreytingum og ýmisskonar óvenjulegu veðri. Þetta gerist í sambland við önnur afbrigði veðurs sem ekki eiga uppruna í  hlýnun jarðar, en geta líka verið fréttnæm”, segir Halldór.

Noregur líka blátt 

Noregur hefur verið á bláa kuldasvæðinu eins og Ísland á heimskortum á meðan margir staðir í Evrópu hafa verið rauðir sökum hita.

Þótt samgöngutruflanir hafi orðið sums staðar vegna snjókomu hefur Noregur ekki þurft að líða fyrir öfgakennt veðurfar eins og í sumum heimshlutum.

Hans Olav Hygen forstöðumaður loftslagsþjónustu norsku veðurstofunnar bendir á að Norðmenn geti prísað sig sæla. “Við erum eitt þeirra ríkja sem ekki hafa orðið fyrir barðinu á öfgakenndum fyrirbærum á borð við hitabylgjur og flóð,” sagði hann í viðtali við Dagbladet.

Skíðatíminn hefur styst um mánuð í Noregi.
Skíðatíminn hefur styst um mánuð í Noregi. Mynd: Knut Bakke/Unsplash

Það þýðir þó ekki að Noregur hafi sloppið við hlýnun jarðar.

„Áþreifanlegasta dæmið er að skíðatímabilið hefur styst um mánuð á 30 til 40 árum.“

Hygen spáir því að skíðafæri muni heyra sögunni til í sunnanverðum Noregi, til dæmis í Osló, í fyrirsjáanlegri framtíð. Slíkt er þó tæpast óásættanlegt miðað við það sem þau ríki sem harðast verða úti þurfa að sæta.

Suðrið harðast úti

Flóð í Sindh og Balochistan héruðum í Pakistan.
Flóð í Sindh og Balochistan héruðum í Pakistan. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Þannig héldu Sameinuðu þjóðarnar í gær ráðstefnu um loftslag-viðnám í Pakistan. Þar urðu 33 milljónir heimilislausar í flóðum á síðasta ári.

„Ef einhver efast um tap og tjón vegna loftslagsbreytinga, ætti viðkomandi að fara til Pakistans,“ sagði António Guterrers á ráðstefnunni í Genf. „Það er tap. Það er tjón. Eyðilegging af völdum loftslagsbreytingar eru raunverulegar, hvort heldur sem er vegna flóða eða þurrka, fellibylja eða stórrigninga. Og eins og venjulega eru þau ríki sem minnsta ábyrgð bera, fyrst til að verða fyrir barðinu á afleiðingunum.“

Sjá einnig hér.