Evrópa: Hálf milljón kvenna eru skornar

0
483
FGM Child marriage Naga rick Flickr CC BY NC ND 2

FGM Child marriage Naga rick Flickr CC BY NC ND 2

Hálf milljón kvenna í Evrópu eru fórnarlömb kynfæraskurðar eða álíka og allar konur í höfuðborgum tveggja Norðurlanda, Kaupmannahafnar og Oslóar samanlagt. Talið er að alls eigi 180 þúsund stúlkur á hættu að vera skornar á þennan hátt á hverju ári.

Þema nýliðins Alþjóðlegs baráttudags kvenna, 8. mars, var uppræting ofbeldis gegn konum og vart er hægt að hugsa sér grófara birtingarform en kynfæraskurð.

Fjórar mismunandi aðferðir eru við kynfæraskurð. Umfangsmesta aðferðin felur í sér að öll ytri kynfæri stúlku eru numin á brott, en í öðrum tilfellum eru snípur og/ eða ytri barmar skornir á brott. Hefðin er sú að notast sé við járnblað eða hníf og saumað fyrir með nál eða þyrnum. Engri deyfingu er beitt og undir hælinn lagt hvort sótthreinsað sé.

En hvers vegna skyldi stúlka sem alin er upp á Vesturlöndum láta umskera sig mótþróalaust? Belgíski vísindamaðurinn Dr Els Leye sem rannsakað hefur umskurð kvenna segir: “Við skulum minnast þess þetta er kynnt með þeim hætti að fjölskyldumeðlimir og foreldrar segja að nú eigi að fagna því með veislu að stúlkan sé orðin kona. Henni er er ekki sagt að þetta sé sársaukafull og ógnvekjandi aðgerð. Í öðru lagi þá kæra börn ekki oft foreldra sína út af þessu frekar en þegar börn eru misnotuð eða sæta illri meðferð. Af þessum sökum er mikilvægt að auka vitund um þetta og vinna forvarnastarf auk þess að bæta löggjöf og aðgerðir í hverju landi fyrir sig.

Þátttakandi á málþingi Evrópuþingsins um kynfæraskurð kvenna sagði nýlega: “Ef við værum að tala um að 180 þúsund börn (eða drengir) ættu á hættu að hendurnar væru höggnar af þeim, yrði allt vitlaust og gripið hefði verið til aðgerða fyrir löngu.”
Hefðin er sú að sérstakir umskerar framkvæmi aðgerðina en þeir gegna ýmsu öðru hlutverki í samfélaginu eins og að vera viðstaddir barnsfæðingar.

Í dag eru hins vegar 18% kynfæraskurða framkvæmdir af heilbrigðisstarfsmönnum sem gefur þessu athæfi lögmæti og viðheldur því. Þetta færist í vöxt.
Lýsing Ifrah Ahmed sem býr á Írlandi en er frá Sómalíu veitir ákveðna innsýn í vandamálið. “Þegar ég kom til Írlands sem flóttamaður 2006 var læknisskoðunin mér áfall. Í fyrsta lagi var túlkurinn karlmaður og það er ekki auðvelt að tala um feimnismál að karlmanni viðstöddum. Hjúkrunarkonan sem skoðaði mig hrópaði upp yfir sig: “Hvað kom fyrir þig?” , þegar hún sá skurðina.” Ég skammaðist mín rosalega.”

Evrópuríki, þar á meðal Norðurlöndin, eru smátt og smátt að átta sig á vandamálinu.

• Í Danmörku hófst stefnumótun í byrjun 9. áratugarins en þá var heilsbrigðisstarfsmönnum bannað að framkvæma aðgerðir. Árið 2011 voru meir en fimmtán þúsund konur í Danmörku frá ríkjum þar sem kynfæraskurður er tíðkaður, meirihlutinn frá Sómalíu. Ekki er þó vitað nákvæmlega hve margar eru fórnarlömb.

• Frá árinu 2008 er kynfæraskurður talinn til áhættuþátta við veitingu hælis fyrir flóttamenn í Svíþjóð.

• Fimm mál sem snúast um kynfæraskurð komu til kasta norskra yfirvalda á árunum 2001 til 2010 en tólf á árinu 2012.