Eyjan bætist í hóp stórblaða sem styðja auglýsingasamkeppni SÞ gegn fátækt

0
452
alt

alt   

Eyjan.is hefur bættst í hóp samstarfsaðila Sameinuðu þjóðainna í umfangsmikilli auglýsingasamkeppni til höfuðs fátækt í heiminum, en á meðal annarra samstarfsaðila er fjöldi erlendra stórblaða. Rúmlega hálfur mánuður er nú til stefnu í keppni um að vinna fimm þúsund evrur. (sjá: http://www.wecanendpoverty.eu/languages/icelandic.html).

“Vonandi fjölgar íslenskum þátttakendum því við höfum aðeins fengið eina tillögu frá Íslandi,” segir Árni Snævarr, erindreki á Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Brussel (UNRIC) sem stendur fyrir keppninni.

Þema hennar er “Slepptu ímyndunaraflinu lausu gegn fátækt.” Keppnin sem nær til allra Evrópulanda hefur að markmiði að kynna Þúsaldarmarkmiðin um þróun (MDGs). Fyrstu verðlaun eru 5.000 evrur eða jafnvirði um 800 þúsund íslenskra króna.

Eyjan.is og Morgunblaðið eru samstarfsaðilar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en fjölmörg stórblöð  í Evrópu leggja keppninni lið og nægir að nefna fjölmiðla á borð við the Guardian í Bretlandi, El Pais á Spáni, La Stampa á Ítalíu, Le Soir í Belgíu, El Publico í Portúgal, MetroXpress í Danmörku, Deutsche Welle í Þýskalandi og Libération í Frakklandi.

Hjarta keppninnar er vefsíðan www.wecanendpoverty.eu. Keppnin er opin öllum íbúum Evrópuríkja, jafnt fagmönnum sem áhugamönnum sem hafa áhuga á að leggja lóð sína á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

“Við höfum nú þegar fengið yfir 900  tillögur frá 31 landi – nú síðast Hvíta-Rússlandi auk þess sem 65 þúsund manns hafa heimsótt heimasíðuna. Merkilegt nokk frá 130 löndum, en til samanburðar má geta að aðildarríki SÞ eru 192. Og keppnin er alls ekki búin,“ segir Árni Snævarr, skipuleggjandi keppninnar á Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC.

“Heimsóknir á síðuna nema tugum þúsunda, þannig að það er ekki aðeins góð verðlaun í boðið, heldur gott tækifæri fyrir hönnuði að koma sér á framfæri. Sigur-auglýsingin verður birt í samstarfs-fjölmiðlum okkar og þrjátíu bestu verða settar á sýningu, þannig að það er til mikils að vinna.”

Sigurvegarinn fær 5.000 evrur í verðlaun frá spænsku ríkisstjórninni við sérstaka verðlaunaafhendingu í Madrid í byrjun september, skömmu fyrir leiðtogafund aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmiðin í New York.