Faremo segir af sér

0
434
Greta Faermo ásamt António Guterres.
Greta Faermo ásamt António Guterres. Mynd: UN Photo/UNOPS/Helena Ohlsson

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt afsögn Greta Faremo forstjóra verkefnaþjónustu  Sameinuðu þjóðanna (United Nations Office for Project Services, UNOPS) og eins af undir-framkvæmdastjórum samtakanna.

Afsögnin tók gildi samstundis. Aðalframkvæmdastjórinn António Guterres þakkaði Faremo fyrir þjónustu hennar við samtökin að því er fram kom í yfirlýsingu talsmanns.

“Það hefur verið mikill heiður að stýra UNOPS síðastliðin 8 ár. Ég er stolt af þeim vexti og árangri sem náðst hefur,” sagði Faremo. “Ekki eru öll kurl komin til grafar um það sem misfarist hefur, en það gerðist á minni vakt og ég tek ábyrgð á því.”

Afsögn Faremo kemur í kjölfar fréttaflutnings New York Times um umdeilda lánveitingu UNOPS, en innri rannsókn á málinu stendur yfir hjá Sameinuðu þjóðunum.

Daninn Jens Wandel er settur forstjóri UNOPS á meðan leitað er eftirmanns Faremo. Hann var síðast sérstakur ráðgjafi aðalframkvæmdastjórans um umbætur á starfi samtakanna.

Faremo hafði langan og fjölbreyttan feril að baki sem stjórnmálamaður, lögfræðingur og stjórnandi fyrirtækja áður en hún gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar 2014. Hún gegndi ýmsum ráðherraembættum í Noregi, þar á meðal á sviði dóms-, olíu-, þróunar- og varnarmála.

Faremo hefur verið í brúnni hjá UNOPS frá 2014 og stýrir 11 þúsund starfsmönnum. Hlutverk UNOPS er að hjálpa Sameinuðu þjóðunum og samstarfsaðilum þeirra að tryggja frið og öryggi í heiminum