Farvegur til að hafa virk áhrif á loftslagsviðræður

0
500

  “Síðasta stopp í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum fyrir Poznan,” er heiti á ráðstefnu sem haldin verður 6. nóvember í Brussel að frumkvæði félagsskaparins the Road to Copenhagen. Hér er um að ræða einstakt pólitiskt frumkvæði sem þrjár leiðandi konur í stjórnmálum standa fyrir; þær Margot Wallström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Gro Harlem Brundtland, sérstakur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Loftslagsmálum og Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og varaforseti Club de Madrid.

Meiri kraftur er að færast í umræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um arftaka Kyoto-bókunarinnar um loftslagsbreytingar enda styttist í að ganga þurfi frá honum. Næsta meiriháttar ráðstefna fyrir Loftslagsleiðtogafundinn í Kaupmannahöfn þar sem samkomulag á að liggja fyrir, er fundur í Poznan í desember á þessu ári. Sá fundur er almennt talinn geta skipt sköpum um árangur á Kaupmannahafnarfundinum að ári.

Litið er á ráðstefnuna í Brussel sem mikilvægan lið í að að hafa áhrif á niðurstöðuna. Búist er við hundrað og tuttugu fulltrúum þjóðþinga, atvinnulífs og almannasamtaka á ráðstefnuna í Brussel en hún er eingöngu opin boðsgestum. 

Forystukonurnar þrjár eru á meðal aðalræðumanna á setningarfundi ráðstefnunnar ásamt  Nathali Kosciusko-Morizet, ráðherra umhverfismála í frönsku ríkisstjórninni. Þær þrjár munu einnig hver um sig stýra vinnuhópi um jafn mörg málefni: aðlögun, tækniþróun í þágu kolefnasnauðs hagkerfis og loftslagsbreytingar og mannréttindi. Þær munu síðan kynna niðurstöðunar: “Hvað bera að gera í Poznan og í kjölfarið?”

Bein áhrif á vefnum

Brussel-ráðstefnan er liður í atburðum og frumkvæðum sem Road to Copenhagen hefur staðið fyrir en að baki félagsskapnum standa einnig samtökin Respect Table, Globe Europe og Club de Madrid. Madrídarfélagið er vettvangur fyrrverandi forystumanna í heiminum og hefur Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands verið virkur þátttakandi og jafnframt verið í forystu á fundum á vettvangi the Road to Copenhagen. 

The Road to Copenhagen var kynnt til sögunnar í nóvember 2007 fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Bali. Markmiðið var að skapa vettvang þar sem þátttakendur gætu haft bein áhrif á samningaviðræður á vettvangi SÞ til að semja arftaka Kyoto-bókunarinnar. 

Vefsíðan www.roadtocopenhagen.org er farvegur þátttakenda sem geta notað spjallþræði og svokallaða wiki samskiptatækni til að taka virkan þátt í að semja stefnuyfirlýsingu sem síðan verður afhent formlega á fundinum í Poznan. 

“Ég er sannfærð um að ekki sé hægt að “laga” loftslagsbreytingar með hefðbundnum pólitískum aðferðum,” segir Margot Wallström, einn oddvita the Road to Copenhagen. “Þetta krefst þess af okkur öllum, sama hvaða hlutverki við gegnum í samfélaginu, að við látum til okkar taka. Daglegt val okkar borgara heimsins og kröfur á hendur fyrirtækjum og stjórnmálamönnum munu ákvarða hitastigið í viðræðunum. Af þessum sökum er mikilvægt að við tjáum áhyggjur okkar, þarfir, hugmyndir og væntingar.”

 

Margot Wallström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er ein þriggja forystukvenna the Road to Copenhagen. Hér sést hún (tv.) ásamt Asha Rose-Migiro, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

“The Road to Copenhagen snýst um að leyfa almenningi og atvinnulífi að láta rödd sína heyrast í viðræðuferli Sameinuðu þjóðanna. Á vefsíðunum getur hver og einn látið ljós sitt skína og rætt við stjórnmálamenn, almannasamtök, atvinnurekendur og alla sem láta loftslagsmál sig einhverju varða.

Hver eru lykilmálefnin sem takast þarf á við? Hvernig getum við þróað aðferðir svo að almenningur og fyrirtæki geti dregið úr losun skaðlegra efna? Hvernig getum við unnið betur saman? Hvaða hlutverki gegna þróunarríki? Hver og einn getur lagt sitt af mörkum til að móta stefnuna með því að taka virkan þátt í ritstjórninni og láta skoðanir sínar í ljósi á svokölluðum wiki- vettvangi  á vefsíðunni,” segir Margot Wallström.

 
Mary Robinsson, fyrrverandi forseti Írlands og fyrrvrandi Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna er ein þriggja forystukvenna the Road to Copenhagen.

Gro Harlem Brundltand er þriðja forystukona the Road to Copenhagen en hún er sérstakur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum, fyrrverandi yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.