Fjárfesta ber í fólki og setja menntun í öndvegi

0
263

Alþjóðlegi menntadagurinn. Menntun veitir börnum tækifæri á að brjótast úr viðjum fátæktar og tryggja sér betri framtíð. Hins vegar gefst 244 milljónum barna og ungmenna í heiminum ekki kostur á skólagöngu. Alþjóða menntadagurinn er haldinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 24.janúar.

Teiknikennsla í jarðlestarstöð.
Teiknikennsla í jarðlestarstöð. Mynd: UNICEF.

617 milljónir barna og ungmenna kunna, hvorki að lesa, draga til stafs, né undirstöðuatriði í reikningi. Færri en 40% stúlkna í Afríku sunnan Sahara ljúka neðstu bekkjum grunnskóla og fjórar miilljónir barna og ungmenna í hópi flóttamanna ganga ekki í skóla. Þetta kamur fram í nýrri úttekt UNESCO, sem birt er í tilefni alþjóðadagsins.

Þeim er meinað um réttinn til þess að njóta menntunar. Án almennrar gæða menntunar, sem stendur öllum til boða, auk símenntunar, mun ríkjum tæpast takast að tryggja jafnrétti kynjanna. Án menntunar er torvelt að brjóta hlekki fátækar og hætt við að milljónir barna, ungmenna og fullorðinna séu skilin eftir.

 Af hverju er þetta brýnt nú?

Veröldin er á tímamótum. Vitað er að þekking og lærdómur eru grunnur fyrir endurnýjun og umbyltingu. En ójöfnuður í heiminum stendur því fyrir þrifum að menntun nái að uppfylla þau fyrirheit að skapa friðasamlega, réttláta og sjálfbæra framtíð.

Norðurlönd eru þekkt fyrir öfluga skuldbindingu um ókeypis menntun á öllum stigum. Yfirlýst markmið norrænna forsætisráðherra sem kynnt var 2018 er að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims fyrir 2030. Þar eru opinberar fjárfestingar í æðri menntun mestar í heimi. Hins vegar eru heildarfjárhæðirnar hlutfallslega ekki eins háar og áður.

Að fjárfesta í fólki

Skóli í Malí.

Þema Alþjóðlegs dags menntunar að þessu sinni er áminning um að “fjárfesta beri í fólki og forgangsraða menntun. “Menntun er kjölfesta samfélaga, efnahagslífs og möguleika hvers einstaklings.”

 “Við skulum skapa menntakerfi, sem styður jafnréttis-samfélag, kraftmikil hagkerfi og takmarkalausa draum sérhvers nemanda í heiminum,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri í ávarpi sínu í tilefni dagsins.

 Menntun er mannréttindi

Menntun fyrir alla
Menntun fyrir alla er eitt heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Rétturinn til menntunar er viðurkenndur í 26.grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Frá því Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt er gildi menntunar viðurkennd, sem forsenda þess að hægt verði að uppfylla markmiðin sautján. Sérstaklega er heimsmarkmið fjögur mikilvægt í þessu samhengi. Þar segir að „Tryggja (skuli) jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi,“ fyrir 2030.