Fjölþjóða-fyrirtæki tæma heiminn og fylla bankareikninga

0
334
Fjölbreytni lífríkisins
Fjölbreytni lífríkisins. Mynd: Unsplash/James Wainscoat

Fjölbreytni lífríkisins. Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika er hafin í Montreal í Kanada. Samningamenn ríkisstjórna heims munu setja ný markmið og viðmið, sem miða að því að stöðva ógnvekjandi eyðingu náttúrunnar af mannavöldum

Ráðstefnan ber nafnið COP15. Eins og á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna er COP skammstöfun fyrir ”Conference of the Parties”  eða ráðstefna aðildarríkja, í þessu tilfelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna um fjölbreytni lífríkisins.

Vonir um nýjan ramma

 Fjölbreytni lífríkisins
António Guterres ávarpar ráðstefnuna um fjölbreytni lífríkisins í Montreal. Mynd: Evan Schneider/UN Photo

Vonir eru bundnar við að ráðstefnan leiði til nýs Rammasamnings um fjölbreytni lífríkisins í heiminum (Global Biodiversity Framework), sem muni verða leiðarljós aðgerða til að vernda auðlindir náttúrunnar fram yfir 2030.

Fulltrúar og skipuleggjendur ráðstefnunnar í Montreal vonast til að þessi rammasamningur beri meiri og varanlegri árangur en fyrirrennararnir. Á COP10 árið 2010 samþykktu ríkisstjórnir metnaðarfull markmið fyrir 2020. Þar á meðal var að helminga tap náttúrulegra búsvæða og hrinda í framkvæmd áætlunum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna sem kom út 2020 sýndi hins vegar fram á að ekki einu einasta markmiði hafði verið náð. Á sama tíma upplifði plánetan mesta brotthvarf lífvera frá því risaeðlurnar hurfu af yfirborði jarðar. Ein milljón jurta og dýrategunda eiga útrýmingu yfir höfði sér.

 Leikföng gróðarfíknar

 António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði áherslu á nauðsyn aðgerða í opnunarræðu sinni í gær. Hann beindi spjótum sínum að fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem hann sagði „fylla bankareikninga sína á sama tíma og þeir tæmdu heiminn af gjöfum náttúrunnar. Þau hefðu gert vistkerfi að „leikföngum gróðafíknar.“ Þá fordæmdi hann uppsöfnun auðs og valda í höndum lítils fjölda ofurríkra einstaklinga.

Fjölbreytni lífríkisins
Fjölbreytni lífríkisins. Flamengó fuglar í Laguna Colorada í Bólivíu. Mynd: Unsplash/Tobias Jelskov

Þetta fyrirbæri, sagði yfirmaður Sameinuðu þjóðanna, stríðir gegn náttúrunni og hagsmunum meirihluta jarðarbúa. „Annars staðar en í brjáluðum draumum milljarðarmæringa, er engin Pláneta B.“

Þá líkti Guterres mannkyninu við „útrýmingarvopn“, sem notaði náttúruna eins og hún væri „salerni.“  Þá sagði hann að í raun væri mannkynið að tortíma sjálfu sér með því að leggja náttúruna og líffræðilegan fjölbreytileika hennar í rúst.

Þrjár aðgerðir til að bjarga líffræðilegum fjölbreytileika

Aðalframkvæmdastjórinn tók saman þær aðgerðir sem nauðsynlegar væru til að bjarga náttúrunni.  Að hans mati eru þær á þremur sviðum.

Alþjóðlegur dagur fjölbreytni lífríkisins
Fjölbreytni lífríkisin© Unsplash/Zdeněk Macháček

Í fyrsta lagi þarf að hrinda í framkvæmd landsáætlunum til að beina því fé sem varið er í niðurgreiðslur og skattaívilnanir, sem eiga þátt í eyðileggingu náttúrunnar, í farveg grænna lausna. Þar er átt við, til dæmis, endurnýjanlega orku, minnkun plastnotkunar, náttúruvæna matvælaframleiðslu og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Þessar áætlanir tækju tillit til réttinda frumbyggja og nærsamfélaga, sem gæslumanna náttúrunnar.

Í annan stað ber einkageiranum, að mati Guterrers, að viðurkenna að ágóði og verndarsjónarmið verða að fara saman.

Stöðvun grænþvottar

„Binda ber enda á grænþvott,“ sagði hann og átti þar við órökstuddar fullyrðingar fyrirtækja um umhverfisvænar vörur. Þess í stað verður einkageirinn að gera reikningsskil fyrir allar sínar aðgerðir hvar sem er í framleiðslu- og birgðakeðjunni.

Í þriðja lagi þurfa ríki á suðurhluta aukinn fjárhagslegan stuðning. Guterres hvatti fjármálastofnanir og fjölþjóða-banka til þess að aðlaga lán að verndun og sjálfbæra nýtingu fjölbreytilegs lífríkis.

Sjá einnig til dæmis hér.