Flóttamannahjálp SÞ gagnrýnir harðlega ný dönsk lög um hælisleitendur

0
733
Filippo Grandi, flóttamannastjóri SÞ

Filippo Grandi forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) segir að stofnunin sé „algjörlega andsnúin” nýjum dönskum lögum sem fela í sér flutning hælisleitenda til þriðja ríkis.

„Þessi lög geta orðið til þess að hælisleitendur séu fluttir með valdi. Þetta felur í sér að Danmörk afsali sér ábyrgð á því ferli sem felst í umsókn um hæli og vernd bágstaddra flóttamanna,“ segir Grandi í yfirlýsingu.

Filippo Grandi, UNHCR

„Flóttamannahjálpin er algjörlega andsnúin tilraunum til að flytja út eða útvista alþjóðlegum skuldbindingum ríkja um vernd til annara ríkja. Slík viðleitni til að víkja sér undan ábyrgð brýtur í bága við bókstaf og anda Flóttamannasáttmálans frá 1951. Sama gildir um Alþjóðlega flóttamannasamninginn (Global Compact on Refugees ) þar sem ríki heims samþykktu að deila jafnar ábyrgðinni á vernd flóttamanna.”

Raunhæfir valkostir

Nú þegar eru 90% allra flóttamanna í þróunarríkjum eða minnst þróuðu ríkjunum. Þrátt fyrir fátækt hafa þau tekið á sig byrðar og uppfyllt alþjóðlegar lagalegar skuldbindingar og ábyrgð.

Flóttamannahjálpin hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum og lýst anstöðu sinni við tillögur dönsku stjórnarinnar og boðið fram ráðgjöf og bent á raunhæfa valkosti.

„Flóttamannahjálpin mun halda áfram samræðum við Danmörku, sem er og hefur verið mikilvægur samstarfsaðili UNHCR, til þess að finna raunhæfar leiðir. Þeim ber að vera í senn trúverðugar í augum dansks almenning en á sama tíma vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Danmerkur,” segir Grandi í yfirlýsingu sinni.