Forstjóri WFP hrósar Íslandi og gagnrýnir Kína og olíuríkin

0
405
David Beasley ávarpar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrr á þessu ári.
David Beasley ávarpar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrr á þessu ári. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

WFP/Ísland. David Beasley forstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna lauk lofsorði á ríkisstjórn Íslands fyrir að tvöfalda framlög til stofnunarinnar í viðtali í Silfri Egils um helgina.

Beasley hefur verið á faraldsfæti til að tryggja aukin framlög til stofnunarinnar og brauðfæða sveltandi fólk í heiminum. Bandaríkjamenn og Þjóðverjar hafa brugðist vel við og juku hinir fyrrnefndu framlög sín um fimm milljarða Bandaríkjadala.

Íslendingar tvöfalda

Beasley og Þórdís Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Beasley og Þórdís Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Mynd: utn.

„Íslendingar hafa tvöfaldað framlagið. Íslendingar eru ekki stórþjóð en teygja sig lengra en margur og eru öðrum til fyrirmyndar, því hver dollar skiptir máli. Ég get fætt fjögur börn með einum dollar,“ sagði Beasley. Hann var ómyrkur í máli um ýmis önnur ríki.

„Við höfum nánast ekkert fengið frá Kína. Persaflóaríkin hafa gríðarlegan ábata af olíunni þessa dagana, líklega um milljarð á dag. Þau ættu að leggja eitthvað fram, þar sem oíuverð hefur áhrif á áburðarverð og matarverðið í gegnum vöruflutningana.“

Okkur fer aftur

Beasley hefur verið forstjóri WFP síðan 2017 og tók við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd stofnunarinnar árið 2020.

 WFP/Marwa Awad
Börn í Suður-Súdan. Mynd: WFP/Marwa Awad

Hann minnir á þær framfarir sem orðið hafa á síðustu 200 árum, en áður bjuggu 95% manna við sárafátækt en aðeins 10% í dag. Þegar hann tók við embætti taldi hann að lokaatlagan gegn hungri í heiminum stæði fyrir dyrum. En hvert áfallið hefur riðið yfir síðan.

„Sannleikurinn er sá að okkur fer nú aftur í fyrsta skipti,“ segir Beasley. Þegar hann tók við starfi sínu taldi sá hópur sem horfist í augu við hungursneyð 80 milljónir. Tveimur árum síðar hafði honum fjölgaði í 135 milljónir vegna styrjaldarátaka og loftslagsöfga. Þá bættist COVID heimsfaraldurinn við og talan var komin í 276 milljónir. Og enn seig á ógæfuhliðina þegar Rússar réðust inn í Úkraínu fyrr á þessu ári.

Hungur sverfur að 345 milljónum

 „345 milljónir manna eru nú á leið í hungursneyð. Þetta gæti orðið helvíti á jörðu,“ sagði Beasley í viðtalinu við Egil Helgason.

Sómalía
Faduma Mohamed Adan, 54 ára, tíu barna móðir ræðir við starfsmann WFP í Sómalíu. WFP/Patrick Mwangi

Sameinuðu þjóðunum og samstarfsríkjum þess, með Tyrkland í broddi fylkingar, tókst að koma á samkomulagi um að greiða fyrir útflutningi matvæla frá Úkraínu. Lokun markaðarins var mikið áfall því landið hefur verið kornforðabúr heims og brauðfætt 400 milljónir manna. Beasley segir brýnt að opna fyrir útflutning Rússa á áburði en þeir eru stærsti útflytjandi tilbúins áburðar í heiminum.

„Nú er hækkandi matarverð vandamálið en vegna þurrka og skorts á áburði gæti matarskortur orðið á næsta ári. 8 milljarðar manna í heiminum fá helming matar síns vegna þessa áburðar.“

Sjá einnig hér.