Fréttablaðið til liðs við SÞ í baráttu við ofbeldi gegn konum

0
439
alt

 
altSameinuðu þjóðirnar í Evrópu hleypa af stokkunum í dag, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, samkeppni um bestu blaðaauglýsinguna til höfuðs ofbeldis gegn konum. 
 
Samkeppnin er samstarfsverkefni Uppýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Brussel, UN Women og ýmissa stórblaða í Evrópu, svo sem Le Monde, the Guardian, El País, La Stampa og Metro-dagblaðanna. Fréttablaðið og visir.is eru samstarfsaðilar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. 
 
“Hver og einn verður að axla ábyrgð til að stöðva ofbeldi,“ segir Michelle Bachelet, forstjóri nýrrar Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Women “ Ríkisstjórnir, einkafyrirtæki, almannasamtök, samfélög og einstaklingar verða að leggja sitt af mörkum. Karlar og strákar verða að vera virkir í því að efla virðingu fyrir konum og skilyrðislausa útilokun ofbeldis.“
 
Þátttökurétt í keppninni hafa allir íbúar hinna 48 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í Evrópu. Samkeppnin hefst 8. mars og lýkur á miðnætti 31. Maí 2011. Sigurvegarinn verður tilkynntur 25. nóvember á Alþjóðlegum baráttudegi til upprætingar ofbeldis gegn konum. Sjá nánari upplýsingar á  www.create4theun.eu
 
 Fyrstu verðlaun eru andvirði 5000 evra, en íslenskur hönnuður, Stefán Einarsson, hönnunarstjóri Hvíta hússins sigraði í sambærilegri keppni Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári. Auglýsing hans “Kæru leiðtogar, við bíðum enn,” hlaut Lúðurinn verðlaun ÍMARKs sem besta auglýsing í almannaþágu síðastliðinn föstudag.