Gamla tölvan þín getur valdið krabbameini í Afríku

0
582

ewaste ghana 1

Norðurlandabúar nota mikið af rafmagnstækjum og hafa orð á sér fyrir að fylgjast vel með nýjustu tækni og endurnýja tækjakost. Flest okkar hugsa sig ekki tvisvar um þegar við fleygjum gömlu tækjunum og fáum okkur nýjasta snjallsímann eða flatskjáinn. En fæst okkar hugsa um örlög gömlu tækjanna og því miður er þetta stórt og vaxandi vandamál. Og það sem meira er að gömlu tækin okkar enda oft í Afríku og valda skaða bæði á heilsu manna og umhverfinu.

Rafeindaúrgangur sem kalla má rafsorp (e-waste), hefur aukist þrisvar sinnum meir en annar úrgangur og 20 til 50 milljón tonn af slíku sorpi verða til á hverju ári. Hluti af raf-sorpi okkar er sem betur fer, endurnýttur. Á Norðurlöndum hefur söfnun rafsorps verið stórbætt á undanförnum árum með nýrri löggjöf og reglugerðum um endurnýtingu. Raunar hafa fjölmargir alþjóðlegir og svæðisbundnir samningar verið gerðir til að hindra að rafsorp sé einfadlega flutt óunnið til fátækra ríkja og munar þar ekki síst um Basel-sáttmálann svokallaða sem tók gildi 1992. Norðurlönd hafa ekki heldur látið sitt eftir liggja til að hindra óæskilegan flutning rafsorps til útlanda.

Þrátt fyrir þessa viðleitni er ekki allur rafúrgangur meðhöndlaður á réttan hátt. Aðeins 10% af rafsorpi í heiminum er endurnýttur. Lög og reglugerðir eru oft sniðgengin og raf-sorpið flutt til Afríku og Asíu til að losna undan sköttum og ábyrgð á endurvinnslu. Svo langt hefur þetta gengið að talað er um”nýlendustefnu eiturefna”.

Rafeindatæki hafa oft og tíðum að geyma talsverð verðmæti ef vel er að gáð, meira að segja gull og kopar (td. í örgjörvanum og minniskubbum). Af þessum sökum má oft sjá í vanþróuðum ríkjum börn og fullorðna róta í rafeinda-öskuhaugum. Fólk lifir í sumum tilfellum algjörlega á því að hluta í sundur gömul rafeindatæki og selja verðmæta málma úr þeim.

UNEP, Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna, bendir hins vegar á í skýrslu um málið að aðferðirnar eru skaðlegar bæði heilsu manna og umhverfinu. Tækin eru brennd en þau innihalda skaðleg efni á borð við kvikasilfur og blý en bruni getur valdið krabbameini, öndunarsjúkdómum og skaðað frjósemisheilbrigði.

Norðurlöndin eru hvorki barnanna verst né best. Danir eru á meðal sjö stærstu útflytjenda notaðra tölva til Afríkuríkisins Gana sem hefur verið sett á válista yfir rafeindasorpslönd. Talið er að 50-70% rafeindasorps í Finnlandi sé ekki endurunninn. Sama gildir um 12 þúsund ton af rafeindasorpi í Svíþjóð og líka um gömul sjónvörp, ísskápa og önnur rafeindatæki sem enda á ruslahaugum í mörgum ríkjum Vestur-Afríku. Að sögn norsku tollgæslunnar er hald lagt á rafeindasorp til útflutnings í hverjum mánuði. “Sumt af þessu má auðvitað endurvinna en annað er hreinlega hættulegur úrgangur”, segja tollayfirvöld.