Gasa: Börn grátbiðja um vatnssopa og brauðmola

0
13
Fimm ára gamall drengur heldur á kisunni sinni innanum rústir á Gasa.
Fimm ára gamall drengur heldur á kisunni sinni innanum rústir á Gasa. Mynd: © UNICEF/Mohammad Ajjour

Gasasvæðið. Mannúðaraðstoð. Philippe Lazzarini forstjóra UNRWA, Palestínu-hjálparinnar, hefur verið leyft að heimsækja Gasaströndina í fyrsta skipti frá því átök blossuðu þar upp í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas á Ísrael.

670,000 Palestínumenn hafa flúið að heiman og hafa leitað skjóls hjá UNRWA á 150 stöðum. 44 af þeim stöðum hafa orðið fyrir skemmdum í sprengjuárásum. 70 starfsmenn UNRWA hafa látist.

 Lazzarini heimsótti meðal annars skóla Palestínu-hjálparinnar í Rafah syðst á Gasa. Þar lést einn og rúmlega 80 særðust í sprengjuárás.  Skólinn var ofsetinn og mikil þröng á þingi.

Lazzarini  hughreystir starfsmann UNRWA á Gasa.

Lazzarini hughreystir starfsmann UNRWA á Gasa. Mynd:UNRWA

„Álagið og óheilnæm lífsskilyrði fólksins eru hreinlega ofar skilningi,“ sagði Lazzarini í yfirlýsingu. „Í stað þess að sitja á skólabekk og læra, grátbáðu börnin um vatnssopa og brauðmola. Þetta snerti mig djúpt. Um fram allt biður fólkið um vopnahlé. Þau vilja að þessum harmleik ljúki.“

59 vöruflutningabílum hefur verið leyft að flytja vistir til Gasasvæðisins frá 7.október.

„Sú hjálp sem hefur borist er allsendis ófullnægjandi, og í engu samræmi við þarfir íbúa Gasa,“ sagði Lazzarini. „Ekkert eldsneyti hefur borist í nærri mánuð og lamar eldsneytisskortur smám saman starf sjúkrahúsa, bakaría, vatnshreinsunar og allt starf okkar.“

Fjölskyldur gísla „búa við skelfingu“

Á mánudag hitti Martin Griffiths forstöðumaður mannúðarmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA)  fjölskyldur rúmlega 230 manna, sem hafa verið í gíslingu á Gasasvæðinu frá 7.október, þar af 30 barna.

Griffiths sagði að undanfarnar vikur hefðu fjölskyldurnar „búið við skelfingu. Þær vita ekki hvort ástvinir þeirra eru lífs eða liðnir.“ Hann sagði að gæti vart gert sér í hugarlund það sem fólkið væri að ganga í gegnum.

 Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað hvatt til tafarlausrar og skilyrðislausrar lausnar gíslanna.

Barn að leik í rústum heimila í Al Shati á Gasa.
Barn að leik í rústum heimila í Al Shati á Gasa. Mynd:© UNICEF/Mohammad Ajjour

Þúsund börn grafin undir rústum

Rúmlega 3450 börn hafa látist á Gasa að sögn heilbrigðisráðuneytis undir stjórn Hamas.

Að minnsta kosti eitt þúsund barna er saknað. Þau kunna að vera látin, eða grafin undir rústunum og bíða björgunar.

Jens Lærke talsmaður mannúðarmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna sagði að það væri „nánast óbærilegt að hugsa um börn grafin undir rústum og litlar líkur á að hægt sé að bjarga þeim.“