Hvað er Palestínu-flóttamannahjálpin?

0
95
Fjölskylda við eyðilagt hús.
Fjölskylda við eyðilagt hús. Mynd: UNRWA

UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpin, hefur leikið lykilhlutverk í að styðja við bakið á flóttamönnum frá Palestínu í 73 ár. UNRWA (The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees) var stofnuð í árslok 1949 eftir að hundruð þúsunda flúðu heimili sín í Palestínu í stríði 1948 eftir stofnun Ísraelsríkis.

 Hlutverk

 Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti stofnun UNRWA með ályktun 8.desember 1949. Markmiðið var að veita flóttamönnum frá Palestínu aðstoð og hjálpa þeim að koma undir sig fótunum eftir að þeir misstu heimili sín og lífsviðurværi í stríðinu 1948. UNRWA hóf starf 1.maí 1950.   

Rekstur skóla er eitt helsta hlutverk UNRWA
Rekstur skóla er eitt helsta hlutverk UNRWA. Mynd: UNRWA

 Hverjir eru flóttamennnirnir?

 UNRWA hefur þjónað mörgum kynslóðum flóttamanna frá Palestínu (sem ekki eru allir Palestínumenn). Miðað er við að þeir hafi verið búsettir í Palestínu frá 1.júní 1946 til 15.maí 1948 og afkomendur þeirra.

 Þjónusta UNRWA

 UNRWA veitir margs konar þjónustu, rekur skóla, heilsugæslu og félagslegt kerfi, heldur við innviðum flóttamannabúða og veitir neyðaraðstoð, ekki síst á stríðstímum.  

Átak UNRWA um að reisn einstaklinga sé hluti af friði.
Átak UNRWA um að reisn einstaklinga sé hluti af friði. Mynd: UNRWA

 Fjármögnun

 UNRWA reiðir sig á valkvæð fjárframlög frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal rausnarleg framlög frá Íslandi. Einnig er nokkur hluti útgjalda greiddur af reglulegum fjárlögum Sameinuðu þjóðanna, fyrst og fremst launakostnaður alþjóðlegra starfsmanna. 

Nærri 6 milljónir flóttamanna

 Þegar UNRWA hófs starfsemi 1950 sinnti stofnunin þörfum um 750 þúsund flóttamanna. Í dag nær þjónusta UNRWA til 5.9 milljóna manna. UNRWA starfar á fimm svæðum: Í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi, Gasasvæðinu og Vesturbakka Jórdanar, þar á meðal Austur-Jerúsalem.