Þegar geðheilbrigði komst á stóra sviðið

0
718

Geðheilbrigðismál hafa sjaldan fengið jafn mikla jákvæða athygli í íslenskri menningu og samfélagi eins og í kjölfar sýningarinnar „Vertu úlfur!“ í Þjóðleikhúsinu. Sýningin byggir á sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar. 10.október er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn.

Einleikurinn sem leikstjórinn Unnur Ösp Stefansdóttir og leikarinn Björn Thors eiga heiðurinn af ásamt Héðni hefur fengið frábæra dóma, fjölda verðlauna og mikla aðsókn.

Aðspurður um velgengnina segir Héðinn Unnsteinsson  í viðtali við vefsíðu UNRICs að Unni Ösp hafi tekist að tengja verk hans við hið mannlega. „Mér finnst henni og þeim, takast svo vel að tengja verkið mennskunni og þessu sniðmengi mennskunnar. Það er ekki verið að fjalla um það sem skilur okkur frá hvort öðru heldur það sem sameinar okkur. Það er það sem verður þess valdandi að margir eru hrifnir og hrærðir þegar þeir koma út af sýningunni, þetta er eitthvað sammannlegt.“

 Margslungið geðheilbrigði

World Mental Heallth Day
Mynd: Þjóðleikhúsið

Það er síður en svo nýtt að geðveiki sé uppspretta listaverka og nægir að nefna „Gaukshreiðrið“ og Inferno eftir Ágúst Strindberg. Galdur „Vertu úlfur!“ felst í því að barátta einstaklings við geðsjúkdóminn er sýnd innanfrá en ekki utan. Áhorfandinn horfist í augu við hversu tvíræð merking geðsjúkdóms er.

„Ég hef aldrei viljað efast um reynslu fólks eða geðveikina sjálfa, en geðsjúkdómar eru svo sérstakir, því þeir eru huglægt mat á huglægu ástandi. Þunglyndi eru sex einkenni yfir tvo mánuði, af hverju ekki átta einkenni yfir þrjá mánuði?,“ segir Héðinn.

Útskúfað úr samfélaginu

World mental health day
Mynd: Þjóðleikhúsið.

Hann bendir á að þegar leikhúsfólkið tók við efninu snérist það ekki endilega um geðröskun. „Frásögnin er sett í farveg hamskipta og fengin upp úr pælingu sem er í bók sem heitir Handbók varúlfa (The Book of Werewolves) og er frá 19.öld. Þar er fjallað um hvernig fólk sem var öðru vísi –  oft með einhverjar raskanir -var sett úr úr samfélaginu. „Wargus estus“, „vertu úlfur“. Þar eru frásagnir af norrænum, evrópskum, frönskum,  og þýskum varúlfum. Verkið er sett í þennan farveg. Hamskipti má finna í Vatnsdælasögu, Völsungasögu og í Egils sögu. Ég stúderaði þetta og verkið er skrifað í þessum fasa, tengt náttúrulega úlfinum en líka „lúna“, sem hefur gefið okkur orðin túnglsýki og lunacy yfir geðsjúkdóma. Allt hangir þetta saman á sömu pælingum um tunglið og úlfinn og það að vera útskúfað úr samfélögum.  Þannig að bókin er skrifuð með þessa metafóru yfir stjórnleysinu, maníunni eða hamskiptunum.“

Bókin sem Héðinn nefnir er eftir breska prestinn Sabine Baring Gould, en þekktasta verk hans á Íslandi er sálmurinn „Áfram kristsmenn krossmenn!“.

Bókin sem Héðinn nefnir er eftir breska prestinn Sabine Baring Gould, en þekktasta verk hans á Íslandi er sálmurinn „Áfram kristmenn krossmenn!“.

Umræður um geðheilbrigði

Verkið hefur ýtt undir umræðu um geðheilbrigðismál bæði beint og óbeint. Aðstandendur þes í samvinnu við heibrigðisyfirvöld og frjáls félagasamtök efndu til málþings í lok september sem sýnt var í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

„Við fengum góð viðbrögð og umræðan var góð,“ segir Héðinn.

Hann er sjálfur embættismaður i forsætisráðuneytinu en hefur einnig starfað hjá heilbrigðisráðuneytinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), auk þess að vera formaður Geðhjálpar.

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 

Be a wolf10.október er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn. Héðinn tekur undir þau orð Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að áhrif COVID-19 á geðheilbrigði geti verið langvinnari en heimsfaraldurinn sjálfur. „Við höfum verið meðvituð um þetta nánast frá upphafi.“

Guterres nefnir í ávarpi á Alþjóða geðheilbrigðisdaginn að í heiminum rennin einungis 2% útgjalda í heilbrigðismálum að meðaltali til geðheilbrigðismála.  Héðinn segir að hér á landi sé þetta nær 12% en á hinn bóginn sé umfang málaflokksins 30%. Og þegar COVID-19 bætist við er ljóst að þörf er á aðgerðum.„Við erum einfaldlega ekki komin þangað enn,“ segir Héðinn.

Upptaka af málþingi á RÚV má sjá hér.  

Nánar um Alþjóða geðheilbrigðisdaginn hér og hér