Geirfuglinn: kennslustund í sögu um fjölbreytni lífríkisins

0
843
Geifuglar
Teikning eftir John Gerrard Keulemans Wikimedia Commons.

Veraldarleiðtogar eru í dag krafðir reikningsskila á sérstökum leiðtogafundi um „brýnar aðgerðir um fjölbreytni lífríkisins”. Fundurinn er á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þessa dagana er að koma út á Íslandi bók eftir Gísla Pálsson sem rifjar upp hvernig geirfuglinn varð aldauða á 19.öld án þess að nokkur maður hreyfði litla fingri honum til varnar.

Geirfuglinn hefur löngum verið ásamt dódó-fuglinum tákn útrýmingar heillra tegunda. Nú þegar

Geirfugl
Geirfugl á safni í Glasgow. Wikimedia commons.

við blasir fjöldaútrýming tegunda á saga hans meira erindi við okkur en nokkru sinni.

Geirfuglinn var í eina tíð tiltölulega algeng sjón á Norður-Atlantshafinu eða allt þar til á 18.öld.

DNA rannsókn hefur nú leitt í ljós með töluverðum líkindum að uppstoppaður geirfugl í eigu Konunglegu belgísku náttúruvísindastofnuanrinnar í Brussel séu líkamlegar leifar síðasta geirfuglsins sem drepinn var á Íslandi árið 1844.

Uppstoppaði fuglinn er geymdur á safninu sem er steinsnar frá stofnunum Evrópusambandsins í belgísku höfuðborginni. En jafnvel þótt fuglinn vaknaði til lífsins gæti hann ekki flogið á vit frelsisins og slegist í hóp dúfnanna við Evrópuþingið í nágrenninu. Geirfuglinn var að vísu góður sundflug en ófleygur.

Eldeyjarferðin 1844

Gerifugl
Eldey. Wikimedia Commons

Þegar þrír Íslendingar Jón Brandsson, Ketill Ketilsson og Sigurður Ísleifsson klifu Eldey, klettaeynna suðvestan við Ísland 3.júlí 1844, fyrir hvatningu dansks kaupmanns, voru tveir geirfuglar sem þeir komu auga á þeim auðveld bráð.

„Þeir sátu keikir, alveg makalaust að sjá þá‘“, sagði Ketill Ketilsson þegar hann rifjaði upp veiðiferðina 14 árum síðar fyrir tveimur breskum vísindamönnum. Þeir John Wolley og Alfred Newton héldu gagngert til Íslands 1958 til að leita að geirfuglum en ljóst var orðið að fáir hlytu að vera eftir hérlendis – síðasta griðastað tegundarinnar á plánetunni.

Eftir að hafa rætt við bændur og fiskimenn aðallega á Suðurnesjum varð ljóst að leitin myndi engan árangur bera. Íslendingarnir sögðu þeim frá síðustu geirfuglunum sem sést hefðu. Þeir hefðu verið drepnir nærri hálfum öðrum áratug fyrr til að fullnægja eftirspurn erlendra safnara eftir fuglum og eggjum. Dagbók bresku vísindamannanna er varðveitt í háskólabókasafninu í Cambridge og þar er skráð nákvæm frásögn af drápi síðustu geirfuglanna.

Geirfugl
Ýmsar teikningar af geirfuglum.Wikimedia Commons.

Ketill Ketilsson sagði Bretunum frá því að þar sem hann elti ófleyga fuglanna á tindi Eldeyjar hafi “runnið á hann tvær grímur.” Hvort honum bauð við verknaðinum eða sjötta skilningarvitið sagði honum að ódæðisverk væri í aðsigi munum við aldrei vita. Ekkert hik var á félaga hans Sigurði Ísleifssyni.  Honum sagðist svo frá að„fuglinn stikaði áfram eins og manneskja en hreyfði fæturna snöggt“. Hann elti hann að bjargbrúninni og náði „hann fuglinum við hengiflugið og með sjóinn beint fyrir neðan sig. Þegar hann „tók um hálsinn á fuglinum blakaði hann vængjunum eilítið til hliðar og hann kyrkti fuglinn þar sem þeir voru beint undir lóðréttu berginu.”

Þetta var síðasti geirfuglinn. Tegundinn hafði nú orðið aldauða að bráð.

Hötumst ekki við drápsmennina

Frásögnin hér að ofan er fengin úr væntanlegri bók Gísla Pálssonar prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands um geirfuglinn. Þótt einsdæmi sé að hægt sé að tímasetja aldauða tegundar og nafngreina drápsmenn síðustu fuglanna varar Gísli við því að skella skuildinni á veiðimennina. Líta beri á aldauða sem lengra ferli.

„Þetta er afar dramatísk saga og var að hluta til það sem dró mig að frásögn Bretanna um síðustu veiðferðina,” segir Gísli í viðtali við vefsíðu UNRIC. Hins vegar væri það einföldun að draga veiðimennina til ábyrgðar og einblína á dráp síðustu fuglannna. Útdauðinn átti sér fyrst og fremst stað með miklum veiðum á Nýfundnalandi á 18.öld. Atburðirnir á Íslandi á fimmta áratug nítjándu aldar eru smámunir.”

Gísli Pálsson fékk fyrir alvöru áhuga á geifuglinum þegar hann frétti af handritum Bretanna í Cambridge. Hann sankaði að sér vitneskju um örlög geirfuglsins og heimsótti söfn víða til að afla upplýsinga.

„Ég hef haft áhuga á umhverfismálum um langt skeið. Nýlega fór athygli mín að beinast að áhrifum hlýnunar jarðar og þeim skaða sem lífið á jörðinni er að verða fyrir, sérstaklega fuglar,“ segir Gísli. „Í mínum huga veitir mál geirfuglsins innsýn inn í yfirvofandi hvarf tegunda sem við erum að verða vitni að í dag.“

Á tíma Darwins 

Geirfugl
Geirfuglsegg. Wikimedia Commons

„Þegar ég var um það bil hálfnaður við að brjótast fram úr handskrifuðu Cambridge -handritinu, varð mér ljóst að þessir atburðir voru hluti af mun stærra máli. Newton var að setja aldauðann á dagskrá.“

Svo vildi til að ferð tvímenningana á geirfuglaslóðir á Ísalndi var farin 1858 rétt í þann mund þegar Charles Darwin og Alfred Russell Wallace voru hvor í sínu lagi að setja fram kenningar sínar um þróun. John Wolley lést skömmu eftir Íslandsferðina en Alfred Newton varð heltekinn af geirfuglinum og útdauða tegunda.

„Newton hitti Darwin nokkrum sinnum á þessum tíma og hlýtur að hafa rætt þetta við hann. Hann varð vitni að aldauða tegundar hér og nú – fólk var að fylgjast með þessu í beinni útsendingu á nítjándu öld. Niðurstaða hans var að hægt væri að spyrna við fótum og hann gerðist einn af forsprökkum náttúru- og fuglaverndar í Bretlandi.”

Endurlífgun eða barátta gegn frekari aldauða?

Sökum græðgi safna og safnara á 19.öld er til gnægð eggja og fjaðra, hama og innyfla gierfugla og því nóg af erfðaefni, DNA. Af þeim sökum er rætt um það í fullri alvöru að „endurlífga“ geirfuglinn.

Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram að gáfulegra væri að eyða orku og peningum í að læra af örlögum hans en að leggjast í slíkar aðgerðir.

„Margar tegundir og sérstaklega fuglar eru í vaxandi og alvarlegri útrýmingarhættu,“ segir Gísli. „Fólk talar um sjöttu fjölda-útrýmingu tegunda sem gæti verið hin síðasta í sögu lífs á jörðunni. Hún er af mannavöldum og afurð mannaldarinnar. Okkur ber frekar andspænis þessari hættu að beina sjónum okkar að einstökum tegundum og spyrja okkur hvað felist í aldauða, greina hvað er að gerast og hvernig við getum spornað við því,“ segir Gísli.

Lundinn og hrafninn næstir?

Geirfugl
Lundi í Látrabjargi. CC BY 3.0

Hann er sjálfur Vestmanneyingur og úr sama landshluta og Eldey þar sem geirfuglinn mætti örlögum sínum. Tákn Eyjar er auðvitað lundinn en hann er nú talinn í útrýmingarhættu ekki aðeins á Íslandi, heldur í Evrópu.

„Ég tel að það sé mjög líklegt að margar tegundir muni hverfa á næstu áratugum, þar á meðal lundinn.“

Fleiri fuglategundir kunna að hverfa á Íslandi þótt þær hjari annars staðar að mati yfirvalda. Þar á meðal eru örninn, fálkinn og hrafninn.

Saga hrafna er samofin sögu íslensku þjóðarinnar, allt frá því þeir vísuðu Hrafna-Flóka til Íslands. Hrafnarnir Huginn og Muninn flugu um allan heim en að kvöld settust þeir á axlir Óðni og krunkuðu í eyra honum skýrslu um ástand heimsmála.

Vonandi munu hrafnarnir setjast á axlir þjóðarleiðtoga og sannfæra þá um nauðsyn þess að varðveita fjölbreytni lífríkisins svo forða megi aldauða tegunda – áður en það er of seint.

Umræður um fjölbreytni lífríkisins fara fram á Allsherjarþinginu í dag og tekur Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þátt í þeim, sjá hér.