Grænlendingar Norðurlandameistarar í reykingum

0
134
Tóbakslausi dagurinn

Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn. Reykingar eru með minnsta móti í heiminum á Norðurlöndum og sama gegnir um dauðsföll sem tengja má tóbaksneyslu. Tóbakslausi dagurinn, oftar kallaður Reyklausi dagurinn, er í dag 31.maí. Þema ársins er „Við þurfum mat, ekki tóbak.”

Grænlendingar eru mestu reykingamenn Norðurlanda að því er fram kom í skýrslu um reykingar í okkar heimshluta 2018. Færeyingar koma þar á eftir en síðan Finnar, Danir, Norðmenn, Álendingar, Íslendingar og Svíar.

Reykt og gengið í Nuuk.
Reykt og gengið í Nuuk. Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

„Norðurlönd mælast lágt hvort heldur sem litið er til reykingavenja eða tóbaks-tengdra dauðsfalla,“ segir Lars Ramström fræðimaður við sænsku Tóbaksrannsóknastofnunina.

Hlutfall reykingafólks, hvort heldur sem er daglegra neytenda eða þeirra sem reykja annað slagið, er hærra á meðal ungs en eldra fólks. 23% 18-24 ára reykja en 19% 45-65 ára.

Ef aðeins þeir sem reykja daglega eru teknir snýst þetta við. 16% eldra fólksins reykir daglega en 13% yngsta hópsins.

Tóbakslausi dagurinn

„Aðeins í Svíþjóð og Danmörku er hærra hlutfall reykingafólks á meðal kvenna en karla, en af ólíkum ástæðum,” bendir Ramström á. „Þegar á sjöunda áratugnum fóru sænskir karlmenn í sívaxandi mæli að taka í vörina í stað þess að reykja. Konur hafa aðeins snúið sér að „snúsinu” á allra síðustu árum. Í Danmörku hafa konur löngum reykt mikið, einnig vindla. Snús hefur lengi verið algengt í Finnlandi og er enn þótt snús-bann ESB gildi nú þar.”

Nýjar tölur frá Norðurlöndum

Reykingasvæði í Reykjavík
Reykingasvæði í Reykjavík. Yadid Levy/norden.org

Ísland: Í skýrslu Landlæknisembættisins um árið 2022 kemur fram að á árinu 2022 reyktu 9% fullorðinna Íslendinga sígarettur, 30% gerðu það um síðustu aldamót. Þar af reyktu 6,2% daglega og 2,8% sjaldnar en daglega. Nokkur minnkun varð eða sem samsvarar einu prósentustigi á milli áranna 2021 og 2022, sem samsvarar því að um það bil tvö þúsund fullorðnir hafi hætt að reykja á síðastliðnu ári. Sala á sígarettum minnkaði um 15% á þessum tíma.

Notkun á tóbaki í vör hefur dregist stórlega saman, að sögn Landlæknis en hins vegar hefur orðið aukning í notkun á nikótínpúðum og rafrettum milli ára. Reykingar eru mun algengari í eldri aldurshópum en hjá þeim sem yngri eru. Rafrettu-notkun eykst á milli ára í yngri aldurshópi kvenna þar sem dagleg notkun meðal 18 til 34 ára fer úr 6,6% í 9,0% á meðan dregur úr notkun hjá körlum úr 8,0% í 6,0%. Í aldurshópnum 55 ára og eldri er dagleg notkun á rafrettum um 2,0%.

Tóbakslausi dagurinn
Mynd:Unsplash/Ruben Bagues

Noregur: Um 7% Norðmanna á aldrinum 16 til 74 reyktu daglega 2022. Þetta jangildir um 320 þúsund sálum. Að auki sögðust jafnmargir reykja annað slagið. Þeir sem eru 45 eða eldri reykja mest daglega, en hinir yngstu síður.

Finnland: Um 12% Finna á aldrinum 20–64 reyktu daglega 2020. 14% karla og 11% kvenna.  Reykingar hafa minnkað í öllum aldursflokkum, sérstaklega á meðal karla. Á níunda áratugnum reyktir þriðji hver karlmaður og fimmta hver kona daglega.

Maður reykir í Noreg
Maður reykir í Noregi. Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

Denmörk: Tölu fyrir síðasta ár, 2022, benda til að 23% Dana noti að minnsta kosti eina tegund tóbaksvara. Jafnframt að reykingafólki fækki ekki lengur. Á sama tíma hækkar hlutfall þeirra sem nota reyklausar nikótínvörur og e-sígarettur. Neysla allra tegunda nikótínvara fer vaxandi í aldurshópnum 15-29 ára. Hins vegar benda kannanir til að 75% allra reykingamanna vilji hætta.

Svíþjóð: Hlutfall þeirra sem reykja daglega hefur minnkað í Svíþjóð frá 2004. Árið 2022 sögðust 6% reykja daglega. Á sama tíma og reykingar minnka, hækkar hlutfall þeirra sem nota snús, ekki síst á meðal kvenna.

Réttur til heilbrigðs lífs

Tóbakslausi dagurinn
Mynd: Nafis al Sadnan/Unsplash

Markmiðið með tóbakslausa deginum er að upplýsa almenning um skaðsemi tóbaksneyslu, markaðssetningu tóbaksframleiðenda og kynna aðgerðir WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar gegn tóbaksfaraldrinum. Þá er fólki um allan heim bent á hvað hægt sé að gera til endurheimta rétt til heilbrigðis og heilsusamlegs lífs fyrir það sjálft og komandi kynslóðir. Aðildarríki Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar samþykktu 1987 að halda upp á tóbakslausa daginn til að vekja athygli á tóbaksfaraldrinum og þeim dauðsföllum og sjúkdómum sem hann veldur.