Hætta á mikilli fjölgun fátækra 2020

0
844
Fátækt
Mynd: ILO

Milljónir manna í heiminum búa við sárustu fátækt. Árið 2018 þurftu 8% jarðarbúa að gera sér að góðu að lifa á andvirði 1.90 Bandaríkjadals á dag. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd.

Þema Alþjóðlegs dags helguðum útrýmingu fátæktar snýst 17.október um að koma á félagslegu- og umhverfislegu réttlæti fyrir alla. Sameinuðu þjóðirnar telja að líta bera á fátækt sem marghliða vanda. Félagslegu réttlæti verði ekki fullnægt án þess að ráðast gegn umhverfislegu óréttlæti svo sem loftslagsbreytingar.

Fátækt
Mynd: UN Photo

Fólk sem býr við fátækt upplifir margs konar innbyrðis tengdan skort sem hindrar það í því að njóta réttinda sinna og festir það í fátækragildrunni. Nefna má skort á næringarríkri fæðu, takmarkaðan aðgang að heilsugæslu, hættulegar vinnuaðstæður, ójafnan aðgang að réttarkerfi, póiltískt valdaleysi og menntunarskort.

Covid-19  þrýstir fólki niður í örbirgð

COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér stórfellt manntjon um allan heim. Hann hefur haft í för með sér fordæmislausa áskorun á lýðheilsu, fæðukerfi og atvinnulíf. Efnahagslegur og félagslegur skaði er óheyrilegur: tugir milljona eiga á hættu að verða örbirgð að bráð. Talið er að flokkur fátækra í heiminum muni gildna um 115 milljónir á þessu ári. Þetta er fyrsta fjölgun fátækra í áratugi. Einnig er búist við að fjöldi vannærðra aukist en nú er talið að 690 milljónir líði hungur. Sú tala gæti hækkað um 132 milljónir fyrir árslok.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bendir á í myndbandsávarpi á alþjóðlega deginum að heimsfaraldurinn leggist af tvöföldum þunga á fátækasta fólkið.

„Þeim er hættast við smiti og hafa minnstan aðgang að hágæðu heilsugæslu,“ segir Guterres.

Oddviti Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á þörfina á öflugum aðgerðum til að berjast gegn fátækt á þessum tímum. Faraldurinn krefst öflugra sameiginlegra aðgerða og aðalaframkvæmdastjórinn hvetur ríkisstjórnir heims til að hraða efnahagslegri umbreytingu með fjárfestingum í sjálfbærri endurreisn.

„Ríki þurfa á nýrri kynslóð áætlana um félagslega vernd, sem nær til fólks í óformlega hagkerfinu. Eina örugga leið okkar út  úr faraldrinum er að taka höndum saman um sameiginlegan málstað,“ segir aðalframkvæmastjórinn.