Hálfrar aldar skyldunotkun bílbelta: milljónum mannslífa verið bjargað

0
100
Hálfrar aldar skyldunotkun bílbelta
Lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi. Mynd: Yadid Levy/norden.org

Skyldunotkun bílbelta. Umferðarslys kosta 1.35 miljónir manna lífið á hverju ári. Talið er að efnahagslegur skaði jafnist á við 3% þjóðarframleiðslu flestra ríkja. Að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), eru umferðarslys helsta dánarorsök barna og ungmenna á aldrinum 5-29 ára.

Lagasetningar um skyldunotkun bílbelta hafa bjargað milljónum mannslífa að sögn stofnana Sameinuðu þjóðanna, nú þegar þess er minnst að hálf öld er liðin frá því fyrstu lög af því tagi voru sett í heiminum.

Umferðaröryggi
Bílbelti. Mynd: Sam Rudkin Mllichamp/Unsplash

„Skyldunotkun bílbelta, auk hjálmanotkunar á reiðhjólum, og pólitísks stuðnings við umferðaröryggi, hafa leikið lykilhlutverk í að fækka dauðsföllum í umferðinni í Evrópu frá upphafi áttunda áratugarins og fram á þennan dag,“ segir Jean Todt sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um umferðaröryggi.

Sætisbeltanotkun farþega í framsæti dregur úr líkum á banaslysi um 45 til 50 af hundraði. Bílbeltanotkun farþega í aftursæti minnkar líkur á dauða eða alvarlegum meiðslum um fjórðung, að sögn  Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). 105 ríki hafa sett fullnægjandi lög um sætisbeltanotkun að því er fram kemur í skýrslu WHO um umferðaröryggi í heiminum.

Umferðaröryggi
Umferðaröryggi. Mynd: Logan Weaver/Unsplash

Fækkun dauðaslysa

Sætisbelti eru enn sem fyrr besta öryggistækið til að forða farþegum frá alvarlegum meiðslum við árekstur og frá því að skjótast út úr bifreið, að mati Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, UNECE. Undanfarna áratugi hafa auknar lagalegar kröfur og óskir neytenda ýtt undir framleiðslu sífellt öruggari bifreiða í hátekjuríkjum. Þetta hefur stuðlað að fækkun dauðaslysa að sögn UNECE.

Banaslysum fækkaði þannig um 15% frá 2000 til 2010 og önnur 15% frá 2010 til 2019. Sérstaklega á þetta við þá sem eru um borð í bifreiðum, jafnt farþega sem ökumenn, segir UNECE.

Af hálfu Sameinuðu þjóðanna hafa verið sett tvenn markmið um umferðaröryggi. Í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun (3.6) segir að „eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu,” og einnig (11.2) að „eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi.”

Frá 2010 til 2019 fækkaði dauðsföllum á meðal þeirra, sem voru um borð í bifreiðum, verulega í þróuðum ríkjum. Sérstaklega má nefna Grikkland þar sem fækkunin var hvorki meira né minna en 63% og Suður-Kórea með 51%.

Dauðaslysum hefur fækkað um rúmlega 30% í nokkrum fjölda ríkja, þar á meðal eru Argentína, Ástralía, Belgía, Danmörk, Írland, Lúxemborg, Litháen, Portúgal, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Sviss.

 Sextánda reglan

Hálf öld bílbelta
Norræn umferð. Mynd : Johannes Jansson/norden.org

Svokölluð 16.regla Sameinuðu þjóðanna (UN Regulation No. 16) er eina almennt viðurkennda alþjóðlega regla um notkun bílbelta. Hún skilgreinir þær kröfur sem gera ber til skilvirks beltis, sem verður að standast tilraunir til að öðlast viðurkenningu um að tryggja öryggi allra um borð í bifreiðum frá börnum til eldra fólks.

52 ríki eiga aðild að Tæknilegu samkomulagi Sameinuðu þjóðanna um ökutæki á hjólum og hafa innleitt sextándu reglu þess í löggjöf sína. Nokkur önnur ríki hafa gert slíkt hið sama með breytingum.

Umferðaröryggi
Gammel kongevej á Friðriksbergi.Mynd: Yadid Levy/norden.org

Auk notkunar bílbelta, kveða reglur Sameinuðu þjóðanna á um að vernd farþega og annarra vegfarenda og má nefna notkun loftpúða, rafrænt stöðugleikaeftirlit, vernd gangandi vegfarenda og hvernig festa skuli börn niður í bíl.

Hin öruggu Norðurlönd

Norðurlönd eru almennt álítin á meðal öruggustu ríkja heims. Svíþjóð og Noregur eru talin skara fram úr í heiminum hvað umferðaröryggi snertir. Fjöldi látinna og slasaðra í umferðinni á Norðurlöndum hefur minnkað verulega á undanförnum fjörutíu árum. Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar, meir en helmingur fylkja Bandaríkjanna og fjölmörg Evrópuríki hafa tekið upp á sína arma „Nollvisionen,” stefnumótun Svía í umferðaröryggismálum.