Mál 3

Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla á öllum aldri

3.1 Eigi síðar en árið 2030 verði dauðsföll af völdum barnsburðar í heiminum komin niður fyrir 70 af hverjum 100.000 börnum sem fæðast á lífi.

3.2 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir nýburadauða og andlát barna undir fimm ára aldri, sem unnt er að afstýra, og stefnt að því að öll lönd nái tíðni nýburadauða niður í 12 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi og dánartíðni barna undir fimm ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 börnum sem fæðast á lífi.

3.3 Eigi síðar en árið 2030 verði búið að útrýma farsóttum á borð við alnæmi, berkla, malaríu og hitabeltissjúkdóma, sem ekki hefur verið sinnt, og barist verði gegn lifrarbólgu, vatnsbornum faraldri og öðrum smitsjúkdómum.

3.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.

3.5 Efldar verði forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis.

3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu.

3.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilbrigðisþjónustu á sviði kynheilbrigðis, meðal annars fyrir þá sem ætla að stofna fjölskyldu, og fræðsla og upplýsingagjöf veitt því tengdu. Tryggt verði að kynheilbrigði verði fellt inn í landsáætlanir.

3.8 Komið verði á heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð fjárhagslegri stöðu, aðgengi veitt að góðri og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að öruggum, virkum og nauðsynlegum lyfjum og bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir alla

3.9 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir, svo um munar, dauðsföll og veikindi af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar.

3.a Rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir verði hvarvetna hrundið í framkvæmd, eftir því sem við á.

3.b Stutt verði við rannsóknir og þróun bóluefna og lyfja gegn smitsjúkdómum og öðrum sjúkdómum sem herja einkum á fólk í þróunarlöndum, aðgengi verði veitt að nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum á viðráðanlegu verði samkvæmt Dohayfirlýsingunni um TRIPS-samninginn og lýðheilsu sem staðfestir rétt þróunarlanda til þess að nýta sér til fulls ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum í því skyni að vernda lýðheilsu og einkum og sér í lagi aðgengi allra að lyfjum.

3.c Talsvert verði aukið við fjármagn til heilbrigðismála sem og til nýliðunar, þróunar og þjálfunar og til að halda í heilbrigðisstarfsfólk í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og þeim sem eru smáeyríki.

3.d Öll lönd, einkum þróunarlönd, verði styrkt til að geta brugðist skjótt við og haft hemil á alvarlegri heilsuvá innan lands og á heimsvísu.