Hamfarir kvenna á Gasasvæðinu

0
26
Palestínskar fjölskyldur hafa letiað skjóls í Deir Al Balah hjá UNRWA
Palestínskar fjölskyldur hafa letiað skjóls í Deir Al Balah hjá UNRWA. Mynd: Mohamed Hinnawi

 Gasasvæðið. Konur. Margar konur á Gasasvæðinu drekka hvorki eins mikið vatn né neyta eins mikils matar og þær þurfa og geta. Ástæðan er því miður ekki aðeins sá mikli matar og vatnsskortur, sem herjar á íbúana, heldur vilja þær í lengstu lög sleppa því að þurfa að fara á salernið.  

Í Rafah í suðurhluta Gasa hafa svo margir leitað skjóls að 480 manns eru um eitt salerni.

 „Margar konur sögðu mér að þær hvorki borðuðu né drykkju, ekki aðeins vegna þess að það er ekki nóg til skiptanna, heldur líka til að þurfa að fara eins sjaldan og hægt er á skítug og óheilnæm klósettin,“ segir Juliette Touma samskiptastjóri UNRWA, sem var á Gasa í síðustu viku.

Juliette Touma samskiptastjóri UNRWA ræðir við konur í Deir Al-Balah-búðunum.
Juliette Touma samskiptastjóri UNRWA ræðir við konur í Deir Al-Balah-búðunum. Mynd. UNRWA

Ein milljón kvenna á flótta

Nærri einni milljón kvenna og stúlkna hefur verið stökkt á flótta og rúmlega sautján þúsund konur og börn hafa verið drepin frá því stríðið blossaði upp í október.

  • 70% óbreyttra borgara, sem látist hafa, eru konur og börn.
  • 2 mæður eru drepnar á hverri klukkustund á Gasasvæðinu.
  • 50 000 konur á Gasa eru ófrískar og 5 522 munu eiga barn sitt innan mánaðar.
  • 3,000+ konur hafa orðið ekkjur og þurfa að sjá fyrir fjölskyldu eftir andlát makans.

(Heimild: UN WOMEN)

Deir Al-Balah búðirnar í suður-Gasa eru mjög ofsetnar.
Deir Al-Balah búðirnar í suður-Gasa eru mjög ofsetnar. Mynd: UNRWA

Ofsetin skýli

Skýli fyrir uppflosnað fólk eru gríðarlega ofsetin, og konur og stúlkur hafa ekkert næði. Þjálfunarbúðir UNRWA í Khan Younis eru stærsta skýlið og hýsa 40 þúsund manns. 140 börn hafa fæðst þar frá upphafi átakanna.

Maysa starfar þar fyrir UNRWA. Hún segir að konurnar biðji hana gjarnan um dömubindi og tíðatappa.

„Skortur á þessum vörum á markaðnum hefur jafnt andleg sem líkamleg áhrif á konurnar,“ segir hún. Ung móðir sagði henni frá hvernig konur reyndi að bjarga sér með heimatilbúnum valkostum, en slíkt hefði engu að síður neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan kvennanna.  Hún sagðist upplifa skömm innan fjölskyldunnar og hins uppflosnaða samfélags.

Maysa starfsmaður UNRWA.
Maysa starfsmaður UNRWA. Mynd: UNRWA

690 þúsund konur þurfa tíðavörur

Rúmlega 690 þúsund konur á Gasasvæðinu eru á blæðinga-aldri og þurfa á tíðavörum að halda, auk aðgangs að hreinu vatni, salerni og næði.

Því miður hefur UNRWA, Palestínuflóttamannahjálpin, ekki undan spurninni eftir hreinlætisvörum. Skortur á tíðavörum setur konur á barneignaaldri í líkamlega hættu vegna hættu á kyn- og þvagfærasýkingum.

Flestum verslunum og lyfjabúðum í Khan Younis hefur verið lokað og eykur það enn á vandann. Dr. Nisreen starfar í heilsugæslu UNRWA í þjálfunarbúðunum í Khan Younis, sem þjónar nú sem griðastaður uppflosnaðs fólks. Hún staðfestir að þótt hreinlætisvörum, sé dreift til kvenna, skorti oft og tíðum tíðavörur. „Skorturinn á þessum vörum á markaði, hefur haft í för með sér verðhækkun, og því enn erfiðara en ella að nálgast þær,“ segir hún.

Börn í ofsetnu skýli.
Börn í ofsetnu skýli. Mynd. Ashraf Amra/UNRWA

Stuðningur frá Evrópusambandinu

 UNRWA hefur útvegað 80 þúsund fjölskyldum hreinlætisvöru-pakka frá upphafi stríðsins. Stofnunin getur haldið áfram þessum stuðningi með fjárframlögum frá Evrópusambandinu til að fjármagna rekstur skýlanna, þar á meðal hreinlætisvara, að andvirði 14 milljónum evra.

Því miður er miklu meira þörf til að minnka mannúðar-hamfarirnar, þar sem konur og stúlkur verða sérstaklega hart úti.

Enn er þrándur í götu fyrir því að koma mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið, vegna hindrana og stanslausra sprengjuárása. Sú aðstoð sem berst er í algjöru lágmarki og engan veginn nóg til þess að halda íbúunum á lífi.