Gasa: Fólk gæti dáið úr hungri í seilingarfjarlægð frá matarbirgðum

0
17
Börn bíða eftir að matvælum sé úthlutað í Rafah. UNICEF/Abed Zagout
Börn bíða eftir að matvælum sé úthlutað í Rafah. UNICEF/Abed Zagout

Stríðið á Gasaströndinni hefur nú staðið yfir í hundrað daga og friður er ekki í sjónmáli. Forstöðumenn mannúðarmála hafa af því tilefni gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hvetja til aukins aðgangs fyrir hjálpargögn. Þeir ítrekuðu að ástæða væri til að óttast hungursneyð og farsóttir ef ekki verði meiri háttar breytingar til hins betra.

„Hætt er við að fólk á Gasa deyi úr hungri aðeins nokkra kílómetra frá flutningabílum fullum af mat,“ sagði Cindy McCain forstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP).

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra hafa komið matvælum til fólks á Gasaströndinni frá því átök blossuðu upp 7.október. Þá voru gerðar hryðjuverkaárásir undir stjórn Hamas á Ísrael og voru 1200 manns drepnir. 250 voru teknir í gíslingu.

„Mannúðaraðstoð er þó ekki nóg til að fullnægja brýnustu þörfum Gasabúa,“ segir í sameiginlegu yfirlýsingunni. McCain sagði að gríðarlega brýnt væri að auka afhendingu aðstoðar, enda reiða allir íbúar Gasa sig á aðstoð til að lifa af.

Fyrsta matvælaaðstoð síðan í nóvember

Á fimmtudag komst fyrsta bílalest WFP til norður Gasa frá því í vopnahléinu í mannúðarskyni í lok nóvember. Nægar matvælabirgðir voru fluttar þangað fyrir 8 þúsund manns.

Í sameiginlegu yfirlýsingunni sögðu þrjár stofnanir Sameinuðu þjóðanna brýnt að opna nýjar flutnginaleiðir til Gasa, leyfa fleiri flutningabílum að fara um landamærastöðvar daglega, minnka hindranir á ferðum mannúðarstarfsmanna og tryggja öryggi fólks sem sækir aðstoð eða dreifir gögnum.

Guterres á blaðamannafundi 15.janúar.
Guterres á blaðamannafundi 15.janúar. Mynd: UN Photo/Joey Felipe

Ekkert réttlætir sameiginlega refsingu

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræddi einnig málefni Gasa hundrað dögum eftir að átök blossuðu upp á ný.. Sagði hann að skefjalausar árásir hefðu leitt til skefjarlausrar eyðileggingar.

„Ekkert getur réttlætt að allir Palestínumenn séu látnir sæta ábyrgð. Mannúðarástandið á Gasa er ólýsanlegt. Enginn er öruggur neins staðar,“ sagði Guterres.

Síðasta alþjóðlega viðurkennda mat á matvælaóöryggi bendir til að um 2.2 milljónir manna búi við kreppu eða hærra stig brýns fæðuóöryggis.