Handbók fyrir unga neytendur um umhverfisvæna lifnaðarhætti

0
493

París/Nairobi – október 2008.  Hvernig á að vera kúl og líta vel út en berjast á sama tíma gegn loftslagsbreytingum? Kastljósinu er beint að þessu atriði í nýrri útgáfu handbókar sem Sameinuðu þjóðirnar gefa út og kallast YouthXchange (sjá einnig á netinu: www.youthxchange.net) Í þessari nýju útgáfu er bent á leiðir til þess að glíma við sorpfjöll sem hrannast upp á tímum sem einkennast af einnota hlutum frá farsímum til tískuvarnings.  

UNEP ( Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna) og UNESCO (Menningarmálastofnunin) hafa nú í annað skipti tekið saman handbók um sjálfbæra neyslu. YouthXchange miðar að því að efla sjálfbæra neysluhætti hjá ungum neytendum um allan heim. Athyglisverðustu viðbæturnar eru kafli um hvernig ungir neytendur geta í senn klætt sig á “kúl” hátt samkvæmt nýjustu tísku og verið meðvitaðir um hvaða áhrif neyslumynstur þeirra hafi, til dæmis á loftslagsbreytingar. 

Sjálfsmynd ungs fólks í dag skapast að hluta til af því hvað það kaupir og sumum finnst þeir öðlast félagslegan þegnrétt með því að kaupa það nýjasta og “svalasta” á markaðnum.  En samt er það svo að án vegvísis getur neysla af þessu tagi ýtt undir vandamál á borð við þynningu ósonlagsins, loftslagsbreytinga og heilsuspillandi sorp sem hafa ekki aðeins áhrif á daglegt líf okkar heldur framtíð jarðarinnar. 

Fólk getur í sívaxandi mæli stýrt áhrifum sínum á umhverfið. Af þessum sökum ákváðu UNEP og UNESCO að uppfæra vegvísinn sem gefinn var út fyrst árið 2002 til þess að ná til nýjustu strauma. Í handbókinni má finna tölfræði, raunhæf dæmi, leiki, frásagnir um græn fyrirtæki og ráðleggingar um sjálfbærari lifnaðarhætti.

Meðal nýjunga má nefna að sýnt er fram á skýrt samhengi á milli neysluhátta og loftslagsbreytinga. Ítarlega er fjallað um tískuna. Tískunni tengist blómlegur iðnaður enda telst vefnaðariðnaður og fataframleiðsla til næst stærsta liðar í heimsviðskiptum. Hins vegar er hátt gjald greitt á sviði mannréttinda og umhverfismála. Þetta gjald getur lækkað ef fólk ákveður að draga úr skaðlegum árhifum með því að fylgja siðareglum í tísku.   

Achim Steiner, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og forstjóri UNEP segir: “Ungt fólk í þróuðum ríkjum getur leikið stórt hlutverk í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þau geta verið svöl á sama tíma sem þau leggja sitt af mörkum til að halda hnettinum svölum

“Ungt fólk getur haft mikil áhrif á heimsvísu með neyslumynstri sínu, lifsstíl og samskiptaneti jafnt í  menntaskólum sem háskólum, tónlistarsenunni og klúbbunum. Unga fólkið getur haft úrslitaáhrif til fá samfélögin, fyrirtækin og ríkin til að styðja samkomulag á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009,” bætti hann við. 

“Þetta frumkvæði er mikilvægt skref í þá átt að auka vitund ungs fólks og stuðla að því að það verði ábyrgir neytendur,” sagði Koïchiro Matsuura, forstjóri UNESCO um útgáfu handbókarinnar.