Heimsmarkmiðin: Lítil trappa veltir þungu hlassi

0
536
Römpum upp Reykjavik
Haraldur og fjölskylda.Mynd Römpum upp Reykjavik

Eittt sinn fyrir Haraldur Þorleifsson var í bænum með fjölskyldu sinni varð sonur hans þyrstur. Hjólastóll föðurins komst hins vegar ekki yfir tröppu á leið inn í verslun á næsta götuhorni og því varð hann að bíða fyrir utan.

Þegar kona hans og börn höfðu lokið verslunarerindinu hafði mikilvæg hugmynd fæðst í huga Haraldar. Sú hugmynd féll vel að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Mynd: Römpum upp Reykjavík.
Verslunarfólk tekur römpum fagnandi. Mynd: Römpum upp Reykjavík.

„Ég sat fyrir utan og beið á meðan fjölskyldan fór inn, og á meðan ég beið fékk ég þessa hugljómun,” segir Haraldur í viðtali við vefsíðu UNRIC: „Ég hef misst af ýmsu; hvort sem er að komast á kaffihús eða fara niður í bæ á Þorláksmessu. Ég deili þessari reynslu með þúsundum annarra Íslendinga og milljónum út um allan heim. Mér fannst kjánalegt að það væri þetta sem ylli því að ég tæki ekki fullan  þátt í lífinu. Ég ákvað bara á þessu augnabliki að ég skyldi byrja á þessu verkefni að “rampa upp”  Reykjavík – hundrað rampa á einu ári.“

Trappan sem hindraði aðgengi Haraldar að versluninni, var ekki sú fyrsta sem hann hafði þurft að glíma við. Haraldur sem er nýorðinn fjörutíu og fimm ára glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóm og síðustu tuttugu ár hefur hann notað hjólastól.

Ákvörðun um aðgengi

„Ég hef búið í Asíu, Norður- og Suður Ameríku. Það er mjög misjafnt hvernig lönd og borgir taka á aðgengismálum. Þetta er bara val, það er fólk sem ákveður hvort það eigi að vera aðgengilegt eða ekki.  Af einhverjum ástæðum hefur verið ákveðið að Ísland ætli ekki að vera aðgengilegt land.”

Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun

Tvö ár eru frá því Haraldur fékk hugmyndina að “Römpum upp Reykjavík” og að koma upp 100 römpum í miðbæ Reykjavíkur.

100? „Íslendingar eru átaksþjóð og það er auðvelt að fá þá í átaksverkefni og gott að vera með skýrt markmið.  Hundrað er góð tala. Ég giskaði á að með 100 römpum yrði miðbærinn orðinn svona skítsæmilegur. Í miðbænum var kannski þriðja hver verslun með mjög lítið aðgengi. Kannski ýkt því þar eru gömul hús og ekki hugsað um aðgengi.

Ég hafði aldrei byggt ramp áður, þannig að þetta var bara út í loftið!”

Sumir í fyrsta sinn í bænum í 20 ár

Römpum upp Reykjavík.
Aðgengi prófað á nýjum ramp. Mynd: Römpum upp Reykjavík.

Fæstum dylst að orðið hefur mikil breyting til batnaðar í miðborg Reykjavíkur og aðgengi fatlaðra hefur batnað til mikillar muna. Enda hafa viðbrögðin verið góð og ráðamenn verið fúsir til að leggja átakinu til, ekki aðeins Reykjavíkurborg heldur einnig ríkið. Jafnt forseti sem forsætisráðherra hafa lýst velþóknun sinni á verkefninu.

„Ég hef hitt mikið af fólki sem notar hjólastól og segjast sumir hafa verið að fara niður Laugaveginn í fyrsta skipti í 20 ár,” segir Harladur. „Aðrir hafa loks komist á ákveðinn veitingastað  í fyrsta skipti eða getað hitt vini sína á enn öðrum stað. Það hafa verið mikil og góð viðbrögð við því.  Ef ég fer á Laugaveginn núna þá sé ég miklu fleira fólk í hjólastól.”

Því er ekki að neita að það greiddi fyrir málinu að Haraldur seldi stafræna hönnunar-fyrirtæki sitt Uneo inc. í Bandaríkjunum og flutti til Reykjavíkur frá San Fransisco. Lagði hann fimmtíu milljónir króna til verkefnsisins.

„Það hjálpar til að eiga pening en það hafa fullt af góðum fyrirtækjum styrkt þetta verkefni og borgin og ríkið og félagasamtök. Þó ég hafi sett þetta í gang þá er það alls ekki þannig að ég hafi borgað þetta allt saman.  Það hjálpar til hvað Ísland er lítið og auðvelt að ná í forsætisráðherrann eða borgarstjórann eða hvern sem er.”

Hundrað rampar verða að þúsund

Römpum upp Reykjavík.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Barði Valdimar Skúlason rithöfundur og Sigríður Theodóra Pétursdóttir framkvæmdastjóri Brandenburg heiðra Harald Þorleifsson. Mynd: Römpum upp Reykjavík.

Ramparnir hundrað, sem leggja átti á einu ári kláruðust á 8 mánuðum.

„Þegar við vorum komin með þá reynslu þá sá ég í fyrsta lagi að þetta væri hægt og að það væri miklu, miklu meira eftir ekki bara í Reykjavík, heldur um allt land. Þá ákváðum við að leggja í þúsund rampa verkefnið.”

Ekki nóg með það heldur hafa myndast tengsl við ýmsar minni borgir í Evrópu um að fara að dæmi Römpum upp Reykjavík. „Það er ekkert sérstakt sem við gerðum sem ekki er hægt að endurtaka annars staðar .”

Í takt við Heimsmarkmiðin

Römpum upp Reykjavík rímar sérstaklega vel við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru áætlun í 17 liðum sem veraldarleiðtogar samþykktu að hrinda í framkvæmd fyrir árið 2030. Þau miða að því að allir jarðarbúar njóti heilbrigðis, réttlætis og velmegunar.

Römpum upp Reykjavík.
Römpum upp Reykjavík framtakið heiðrað af hálfu Reykjavíkurborgar. Mynd: Römpum upp Reykjavík.

Í fjórða markmiðinu er hvatt til tryggt sé að fólk með fötlun geti notið hágæða menntunar, áttunda markmiðið að það njóti afurða hagvaxtar og fullrar atvinnuþátttöku, að ógleymdu ellefta markmiðinu um að „borgir og íbúðasvæði séu öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.”

En þegar heimsmarkmiðin eru annars vegar, kemur Haraldur víðar við sögu. Í tíunda markmiðinu er hvatt til þess að draga úr ójöfnuði og tryggja að enginn sé skilinn eftir.

Haraldur er afar meðvitaður um það að hann á árangur sinn ýmsum forréttindum að þakka.

Að gefa til baka

„Ég ólst upp á Íslandi og fjölskylda mín var verkamannafjölskylda. Við áttum ekki mikinn pening, en fór í gegnum allt skólakerfið. Einhver borgaði fyrir það, það voru ekki við.”

Þessi afstaða lá til grundvallar þegar Haraldur lagði áherslu á þegar hann seldi fyrirtæki sitt Uneo til Twitter að hann greiddi tekjuskatt á Íslandi af sölunni og forðaðist þar með í lengstu lög hvers kyns skattaundanskot.

: Römpum upp Reykjavík.
Ramparnir falla vel inn í umhverfið í miðbænum. Mynd: Römpum upp Reykjavík.

„Ég er sérstaklega næmur fyrir því að vilja hjálpa til við að jafna leikvöllinn fyrir fólk, þegar ég get,” segir Haraldur einfaldlega.  “Ég held að samfélag virki ekki nema það taki allir þátt. Ég hef búið í Bandaríkjunum þar sem það er alls ekki þannig að fólk sem er með minn sjúkdóm geti komist áfram.”

Merkilegt að þykja merkilegt að borga skatta

Ytra voru viðbrögðin lítil sem engin, en öðru máli gegnir á Íslandi.

„Viðbrögðin hérna heima voru áhugaverð því ég nefndi þetta bara einu sinni á Twitter,” útskýrir Haraldur. Hann viðurkennir að hann segir margt en oftast fái það ekki mikla athygli. Öðru máli gegndi um þetta tíst. „Fólki finnst þetta merkilegt, sem er út af fyrir sig ansi merkilegt!  Það ætti auðvitað ekki að vera þannig að það þyki ekki sjáfsagt að fólki vilji leggja til samfélagsins. Að einhverju leyti varð þetta bara að gjörningi, að sjá hvernig samfélagið brást við – það varð miklu áhugaverðara fyrir mig en verknaðurinn sjálfur.“

Svo mikið er víst að frumkvæðið hefur skilað sér í betra aðgengi fatlaðra í miðborg Reykjavíkur og víða um land. Og því er ekki að neita að Heimsmarkmiðin þyrftu á fleiri slíkum mönnum að halda til að þau verði að veruleika fyrir árið 2030 eins og stefnt er að.